149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

synjun landvistarleyfis.

[15:18]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Það vakti athygli mína í fjölmiðlum núna um helgina sagan hans Péturs og filippseyskrar konu hans til tæplega 11 ára og tíu ára gamallar dóttur. Staðan er sú samkvæmt þessari frétt að Pétur er sjúklingur. Hann getur ekki unnið fyrir heimilinu. Konan sækir um dvalarleyfi á Íslandi — hugsið ykkur, eiginkona hans til 11 ára. Dóttirin fer í skóla í haust, en mæðgunum er synjað um dvalarleyfi á þeim forsendum að fjölskyldan geti ekki sýnt fram á að hún geti séð fyrir sér. Þau sýni ekki nógu mikla innkomu til að geta séð fyrir fjölskyldunni þannig að konan er send úr landi.

Fram kemur að konan getur ekki unnið fyrir fjölskyldunni vegna þess að hún kemst ekki út á vinnumarkaðinn af því að það eru svo háir þröskuldar. Hún fær ekki leyfi til þess að reyna að sýna fram á að hún geti framfleytt fjölskyldunni. Síðan er henni meinað að vera hér og hún er send úr landi á þeim forsendum að hún geti ekki unnið fyrir fjölskyldunni. Er ekki eitthvað að kerfi sem gerir það ómögulegt? Það er bara hreinn og klár ómöguleiki í boði, þannig að þau geta ekki einu sinni unnið fyrir sér þótt þau vildu. Konan getur ekki unnið fyrir fjölskyldunni þótt hún vilji. Þarna erum við stödd.

Við höfum líka mannúð og í þessu tilviki, þegar við erum að tala um svona mál að við erum að fara að sundra fjölskyldu og við erum að senda móðurina úr landi. Ég spyr: Er ekki eitthvað að svona kerfi, hæstv. forsætisráðherra? Og er það ekki í okkar höndum að reyna að koma í veg fyrir og girða fyrir að svona lagað geti átt sér stað?