149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

staða Landsréttar.

[15:57]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka kærlega fyrir þessa umræðu um þetta mikilvæga dómstig, millidómstig, áfrýjunardómstól sem Landsréttur er. Þetta er ein af mikilvægari réttarbótum sem við höfum orðið vitni að í íslenskri réttarsögu. Það er alveg ótrúlega sorglegt að enn þann dag í dag séum við með óvissustig uppi. Við höfum í rauninni verið með óvissu þegar kemur að Landsrétti allt frá því að fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríður Á. Andersen, tók ákvörðun um að beita sínum geðþóttahugmyndum við röðun á lista þeirra sem skipa átti sem dómara við Landsrétt. Allt frá þeim degi, frá sumrinu 2017, hefur þessi óvissa verið uppi og margsinnis hefur verið varað við þessu ástandi.

Spurt var: Hvað hyggst ráðherra gera gagnvart stöðunni ef Mannréttindadómstóllinn neitar? Ég vil líka spyrja: Hvað hyggst hæstv. dómsmálaráðherra gera ef áfrýjun verður samþykkt? Þá erum við líka í sömu óvissu. Það er kannski þarna sem alvarleiki málsins er. Svo virðist sem ríkisstjórn Íslands sé algerlega vanmáttug gagnvart því verkefni að svara skýru kalli Dómstólasýslunnar um að fjölga dómurum við Landsrétt án tafar.

Það liggur fyrir að fjórir dómarar við Landsrétt geta ekki starfað og í haust verða þeir fimm. Þetta er þriðjungur allra dómara við Landsrétt. Það er mjög alvarlegt þegar starfandi dómsmálaráðherra, tímabundið eins og margoft hefur komið fram, lýsir því ítrekað yfir bæði í fjölmiðlum og hér í ræðustól Alþingis að hún hyggist ekki ætla að gera neitt. Ekki ætla að gera neitt til að koma (Forseti hringir.) réttarkerfinu á Íslandi til aðstoðar. Ég skil ekki þetta ábyrgðarleysi.