149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

staða Landsréttar.

[16:12]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka þátttakendum fyrir þann hluta umræðunnar sem lokið er. Umræðan setur mann dálítið í þá stöðu að maður fær töluverða samúð með fyrrverandi dómsmálaráðherra, því að hæstv. ráðherra hafði vissulega úr vöndu að ráða þegar lagðar voru fyrir hana tillögur um dómaralista en hvorki meira né minna en samstarfsflokkar í ríkisstjórn stigu fram og sögðu efnislega: Þessi listi fer ekki í gegn eins og hann liggur fyrir.

Ég held að það hafi enginn á nokkru stigi málsins dregið það til baka. Samkvæmt minni — ég er nokkuð viss um að það heldur hvað þetta varðar — voru það bæði fulltrúar og ráðherrar Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sem gerðu alvarlegar athugasemdir við þann lista sem hæfisnefndin lagði fram.

Ég verð að viðurkenna að þessi stöðugu uppþot síðan þetta varð að því máli sem við fjöllum um í dag, virðast hafa haft það eina markmið að draga úr trúverðugleika og tiltrú dómstóla í landinu. Því að það er ekkert í þessu máli sem bendir til þess að menn séu að leita einhverra sérstakra lausna á því, enda er þetta ósköp einfalt og skiptir oft miklu máli að fara ekki á taugum.

Ég vil bara endurtaka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni:

Alþingi Íslendinga samþykkti skipun 15 dómara í Landsrétt. Forseti Íslands staðfesti skipun dómaranna að lokinni eigin athugun. Landsréttur hefur dæmt að dómararnir fari með dómsvald.

Hæstiréttur Íslands hefur dæmt að dómararnir fari með dómsvald og að í því felist ekki mannréttindabrot.

Því verður ekki haggað með álitum erlendra embættismanna svo lengi sem Ísland er fullvalda ríki.