149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

tækifæri garðyrkjunnar.

[16:49]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Saga garðyrkju hér á landi er ekki ýkja löng ef litið er til sögu landsins en hún hefur farið vaxandi, enda búið við auðlindir sem hafa nýst okkur vel til ræktunar eins og jarðvarma og raforku, sem eru okkur mikilvæg í ræktun og gróðurhúsum og því stór þáttur í rekstrarkostnaði garðyrkjubænda. Stuðningsgreiðslur ríkisins til framleiðenda garðyrkjuafurða snúa að niðurgreiðslu á raforku samkvæmt samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða frá 2016 og svo beingreiðslur til framleiðenda á gúrkum, tómötum og paprikum, og þá einungis til þeirra afurða. Beingreiðslur eru ekki vegna útiræktunar á grænmeti eins og á kartöflum, káli, gulrótum og rófum, svo að dæmi séu tekin. Útiræktað grænmeti nýtur ekki stuðnings nema þá í formi þeirrar tollverndar sem beitt er þegar íslenska framleiðslan er á markaði.

Útiræktun hefur verið á undanhaldi frá aldamótum og má nefna að kartöfluframleiðsla hér á landi hefur farið úr 10.000 tonnum í 6.000 tonn. Frá því að dregið var úr tollvernd íslensks grænmetis um aldamótin hefur markaðshlutdeild íslensks grænmetis minnkað verulega. Bara frá 2010 hefur markaðshlutdeild farið úr 75% í 52%.

Stefna stjórnvalda með stuðningi við garðyrkjubændur er að auka framboð og neyslu á garðyrkjuafurðum í samræmi við lýðheilsustefnu stjórnvalda og auka vitund almennings um hollustu og heilbrigða lífshætti.

Hlýnun jarðar er talin vera eitt stærsta vandamál sem mannkynið stendur frammi fyrir um þessar mundir. Kolefnisfótspor matvælaframleiðslu skiptir mannkynið allt máli, hvernig matvæla við neytum og hvar tækifærin liggja. Forskot íslenskrar framleiðslu í grænmeti er umtalsvert miðað við innflutta framleiðslu. Það er mikilvægt að huga að tækifærum í þeim málum, bæði út frá fjárhagslegum kostnaði og umhverfissjónarmiðum. Útiræktun grænmetis er á undanhaldi og spurning er hvort það sé vilji til þess að taka upp beingreiðslur fyrir útiræktun, t.d. gegn niðurfellingu tollverndar.