149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:53]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Háæruverðugur forseti. Ég hafði hugsað mér að flytja hér ræðu um þróun orkumarkaðar innan Evrópusambandsins en verð að bíða með þá ræðu því að mér þykir meira aðkallandi að hrósa því unga fólki sem skrapaði saman peningum til að kaupa mjög dýra, vænti ég, opnu í Fréttablaðinu til að auglýsa stuðning sinn við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Nú þykist ég ekki geta greint afstöðu hvers einasta af þessum 272, held ég það hafi verið, aðilum sem keyptu þessa auglýsingu til þessa samnings, eða hvort þeir telji allir að samningurinn sé fullkominn eins og hann er. En það verður að segjast eins og er að það er virðingarvert að fólk skuli með þessum hætti lýsa því yfir að það telji mikilvægt að standa vörð um samning sem það telur mikilvægan íslenskum þjóðarhagsmunum til framtíðar. Og ríkisstjórnin hlýtur að taka þessi skilaboð til sín. Hún hlýtur fyrir vikið að líta til þess sem við höfum verið að benda á hér, hv. þingmenn Miðflokksins og fleiri, að sú vegferð, svo að ég noti nú Samfylkingarmál, virðulegur forseti, sem ríkisstjórnin er á í þessu máli er einmitt til þess fallin að setja þennan samning í hættu. Við hljótum að æskja þess að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sé þess eðlis að hann sé til þess fallinn, eins og lagt var upp með í upphafi, að tryggja gagnkvæma hagsmuni Íslands og annarra þeirra landa sem eru aðilar að þessum samningi.

Það getur ekki verið að við viljum að sá samningur þróist í þá átt að við Íslendingar, að því er virðist þá ein þjóða, treystum okkur ekki til að nýta þau ákvæði sem samningurinn tryggir til þess að skera úr um álitamál, skera úr um mál þar sem ein þjóð telur að hagsmunir hennar séu fyrir borð bornir. En samningurinn tryggir þetta einmitt mjög rækilega, m.a. með 102. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að þegar mál koma upp, sem ein þjóð eða fleiri hafa áhyggjur af að gangi gegn eigin hagsmunum, þá sé því máli vísað aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar og leitt til lykta þar í svokölluðu sáttaferli.

Getur það verið, yðar frómheit, virðulegur forseti, að ríkisstjórnin vilji ekki nýta sáttaferli sem sérstaklega er gert ráð fyrir í samningnum til að leiða þetta mál til lykta? Í ljósi þess að svo margir hafa lýst yfir vilja sínum til þess að standa vörð um EES-samninginn hljótum við að vilja virkja slík ákvæði og verja rétt okkar innan þess samnings, setja með því jákvætt fordæmi til framtíðar fremur en að setja það neikvæða fordæmi, sem mér heyrist því miður allt of margir tala fyrir, að við verðum að gefa eftir innan þessa samstarfs til að styggja ekki samstarfsþjóðir okkar.

Það er mjög hættulegt fordæmi, virðulegur forseti, því við höfum séð það nú þegar að það hve vel Íslendingar hafa staðið sig við að innleiða Evrópureglugerðir, m.a. í orkumálum, hefur verið notað sem rökstuðningur fyrir því að við þurfum að innleiða áfram athugasemdalaust. Er því ekki einmitt mikilvægt að setja nú það fordæmi að við séum tilbúnir til þess að nýta þá kosti sem í samningnum eru til að verja okkar eigin hagsmuni og verja þar með þetta samstarf til framtíðar? Ef við förum í hina áttina og förum að líta á þennan samning sem einhvers konar ógnarsamband milli okkar og samstarfsþjóða okkar í þessum samningi, þá er það meira en nokkuð annað til þess fallið að veikja samninginn.

Getum við ekki verið sammála um það að taka mið af áskorunum þeirra sem vilja verja EES-samninginn og nýta kosti hans, ekki hvað síst til þess að verja hagsmuni okkar, a.m.k. þegar við teljum verulegan vafa leika á að þeir séu varðir með þeirri nálgun sem uppi er?