149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:05]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sætir nokkurri furðu að hv. formaður utanríkismálanefndar skuli nú líta á það sem sérstakan kost að hægt sé að benda á fyrirvara hér og þar í einhverjum greinargerðum og einhverjum skrefum hinna og þessara. Ég veit ekki hvort fulltrúar stjórnarmeirihlutans fari áður en nóttin er úti að benda á einhverjar Facebook-færslur til staðfestingar þess að einhver hafi haft fyrirvara um innleiðinguna, því að það liggur algerlega ljóst fyrir hvernig þetta Evrópusamstarf virkar og hvernig EES-samningurinn virkar. Það er ekki hægt að nefna eitt dæmi — ekki eitt dæmi um að einhliða fyrirvarar við innleiðingu hafi haldið. Ég er reyndar ekki viss um og ég efast um að hægt sé að nefna eitt dæmi um að slíkt hafi verið reynt, að innleiða reglugerðir Evrópusambandsins en láta um leið fylgja í greinargerð eða einhvers staðar annars staðar þá skoðun að menn myndu gjarnan vilja að það væru ákveðnir fyrirvarar á innleiðingunni. Þegar til kastanna kæmi hef ég grun um að slíkt héldi vart velli.

Og af því að hv. þingmaður nefnir þá fræðimenn sem bentu sérstaklega á mikilvægi þess að huga vel að þessum fyrirvörum, þá kom fram í máli þeirra fyrir utanríkismálanefnd að þeir hefðu ekki séð þessa fyrirvara, en að þeir þyrftu að vera þess eðlis að innleiðingin tæki ekki gildi. En nú býður ríkisstjórnin upp á það að innleiða að fullu, með hefðbundnum hætti, ef ég man orðalagið rétt, þriðja orkupakkann í heild, en lýsa því um leið í greinargerð að menn myndu mjög gjarnan vilja að á því væru einhverjir fyrirvarar. Þetta er náttúrlega ekki boðleg framkvæmd fyrir Alþingi Íslendinga.