149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:14]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur yðar frómheitum væntanlega ekki á óvart að ég er mjög undrandi á því að hv. þingmaður skuli halda því fram að ekki hafi komið fram efasemdir um að þetta mál stæðist stjórnarskrá. Nægir þar að vísa til margítrekaðs álits fyrrnefndra fræðimanna, en líka greiningar samtakanna Orkunnar okkar. Allt lýtur þetta að því sama, að menn benda á að leiðin til að komast hjá því að ágreiningur vakni eða efasemdir um að þetta standist stjórnarskrá sé að innleiða ekki.

Hv. þingmaður hefur í umræðum, bæði nú og fyrr, bent á með réttu, leyfi ég mér að segja, virðulegi forseti, að takist að koma í veg fyrir að innleiðingin eigi sér stað þá séu menn að fresta vandanum og búa til nýtt og jafnvel stærra vandamál í framtíðinni sem gæti, að maður skyldi ætla, ef eitthvað væri að marka þessa fyrirvara, dregið úr líkunum á að lagður yrði sæstrengur. Þetta er gamla ógnarjafnvægiskenningin úr kalda stríðinu, þar sem menn bentu á að það væri kannski ágætt fyrir heimsfriðinn að menn væru vopnaðir kjarnorkuvopnum vegna þess að ef einhver byrjaði að sprengja myndu hinir gera slíkt hið sama.

Nú er þessu stillt upp þannig fyrir okkur hér á Alþingi, af hv. þingmanni a.m.k., að við eigum að líta svo á að það að fresta vandanum inn í framtíðina búi til svo stórt vandamál hvað varðar lagningu sæstrengs að menn muni ekki þora að ráðast í þá lagningu.

En því miður, virðulegur forseti, óttast ég, og væntanlega margir aðrir, að þegar þar að kæmi fengjum við sömu rökin um það að þeir sem ekki væru tilbúnir til að opna markaðinn með slíkum hætti væru einfaldlega einangrunarsinnar og á móti alþjóðasamstarfi og EES-samningnum.