149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:53]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu og ég er í megindráttum sammála honum. Ég vil þó samt spyrja hann aðeins nánar út í skilning hans á því hvernig samningar virka í raun. Hv. þingmaður hefur heilmikla reynslu úr atvinnulífinu og hefur auk þess fylgst með stjórnmálum í mörg ár og áratugi, held ég að mér sé óhætt að segja. Það hefur komið upp í tengslum við umræðu um þennan orkupakka að við værum á einhvern hátt að gera okkur erfiðara fyrir, jafnvel að setja samninginn í hættu, með því að nýta þau ákvæði sem í honum eru.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar, og það er það sem ég hef áhuga á að vita hvort hv. þingmaður sé sammála mér um, að það að nýta ákvæði sem eru til staðar í samningi sé þvert á móti til þess fallið að styrkja þau ákvæði og möguleika manna í framhaldinu á því að nýta þau. Ef menn bera því fyrir sig nú að eitthvert ákvæði, kannski 102. gr. í þessu tilviki, hafi ekki verið nýtt svo lengi að þess vegna megum við ekki nýta það myndi ég ætla að það væri til þess fallið að gera okkur erfiðara fyrir að nýta það síðar. Ef við hins vegar nýtum greinina og búum til ákveðið fordæmi með því og vísum þessu máli í þá sáttameðferð sem samningurinn gerir ráð fyrir myndi ég halda að við værum til framtíðar að styrkja möguleika okkar á að nýta þessa grein síðar.

Er hv. þingmaður sammála þessu mati mínu og þar af leiðandi sammála því að það að veigra sér við að nýta greinina sé alls ekki til þess fallið að styrkja samninginn heldur þvert á móti að veikja hann og stöðu okkar Íslendinga innan hans?