149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:58]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ánægður með að hv. þingmaður skyldi hér í andsvari nefna atriði sem ég ætlaði að spyrja sérstaklega út í í seinna andsvari, þ.e. hættuna sem felst í því hvernig haldið er á þessu máli núna og þau fordæmi sem það kann að gefa. Það hvernig íslensk stjórnvöld nálgast þetta nú og draga úr rétti okkar í orðum sínum og gjörðum, draga úr rétti okkar samkvæmt þessum samningi, við hljótum að telja það varasamt fordæmi sem geti bitnað mjög verulega á okkur síðar.

En ég ætlaði líka að nefna þau fordæmi sem þegar liggja fyrir, vegna þess að Íslendingar hafa oft og tíðum nálgast EES-samninginn með þeim hætti að vilja vera duglegir við innleiðingar. Stundum er sagt að við séum kaþólskari en páfinn í þeim efnum og menn hafa nefnt ótal atriði um það hvernig hinar ýmsu Evrópuþjóðir hafa leyft sér að líta fram hjá hinum ýmsu ákvæðum samningsins, á meðan íslensk stjórnvöld og stjórnkerfið hér hafa fylgt þessu eftir af miklu kappi, svo að ég noti nú ekki sterkara orðalag, fylgt þessum Evrópusambandsreglum eftir af miklu kappi.

En þetta á ekki hvað síst við um orkumálin, þar sem innleiðingar Íslendinga á orkutilskipunum Evrópusambandsins hafa, að því er mér skilst, þegar orðið til þess að menn gera síður ráð fyrir því að Íslendingar geti gert kröfur um undanþágur nú í ljósi þess að þeir hafi staðið sig svo vel við að innleiða aðrar orkutilskipanir. Er það ekki einmitt skýr áminning um mikilvægi þess að grípa inn í á þessu stigi svo að við lendum ekki í því sama í orkupakka fjögur og fimm þegar og ef þeir koma.