149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir seinna andsvarið. Sá sem hér stendur getur alveg viðurkennt að hann vissi ekki alveg hvort hann átti að hlæja eða gráta þegar því var beitt sem sérstökum rökum, fyrir því að Ísland ætti að innleiða þriðja orkupakkann eins og hann kæmi fyrir, að við hefðum staðið okkur svo vel við innleiðingu fyrri orkupakka, meira að segja gengið miklu lengra en við þurftum að gera, og þess vegna væri nú lítið mál fyrir okkur að afgreiða þennan þriðja pakka og gera það með bravör.

Svo að maður segi eins og er þá held ég að menn sem eigi svona vini þurfi ekki óvini. Ef það er eitthvað sem er líklegt til að grafa hratt undan stöðu sem menn hafa í tvíhliða samkomulagi er það háttalag sem þetta, þar sem augljós tækifæri til hagsmunagæslu eru ekki nýtt og ekki bara hagsmunagæslu heldur varna gagnvart, í þessu tilviki, innleiðingu sem menn telja, að því er virðist flestir hér í þingsalnum, ekki hafa neina raunverulega þýðingu gagnvart hinum innlenda markaði. En það er nú það sem við höfðum efasemdir um. En menn sannfæra sig einhvern veginn um að þetta sé svo lítið og mikið smotterí að engin ástæða sé til að setja upp varnir. Menn taka því bara sem sjálfstæðum rökum og bera þau síðan áfram fyrir þingheim að mönnum sé í lófa lagið að innleiða þetta, af því þeim hafi gengið svo vel með fyrri orkupakkainnleiðingar.

Ég bara ítreka það sem ég sagði í fyrra svari mínu, að það að hantera 102. gr. með þeim hætti að hún hafi verið (Forseti hringir.) upp á punt á sínum tíma, það er vísasti vegurinn til að grafa undan þeim farvegi sem við þar sannarlega eigum.