149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Það getur verið snúið að rökræða við handhafa sannleikans sem skilur allt rétt og hefur óumdeildar staðreyndir í allar áttir. (HHG: Þú hefur það líka.) Hvað segirðu? (HHG: Þú hefur það líka.) Sko, það sem við erum að fjalla um hérna, og mér þykir það undarlegt — ég hef veitt því athygli að hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur setið hér löngum stundum og hlustað á umræðuna sem átt hefur sér stað. Ef hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson upplifir það þannig að stuðningsmenn þingsályktunartillögunnar séu ekki að vara við því að fara þá leið að vísa málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar þá veit ég ekki hvað. Ég held að hv. þingmaður sé ekki með „head-settið“ þegar hann situr í salnum. En ég held að öllum sem hlustað hafa á umræðuna með bærilegri eftirtekt hljóti að vera það ljóst að stór hluti þeirra röksemda sem fram hafa verið settar gegn því að vísa málinu aftur til sameiginlegu EES-nefndarinnar, sé settur fram á þeim forsendum að menn eigi að hræðast það. Það sé ekki ástæða til að kippa í þann neyðarhemil, eins og einhver orðaði það, að taka þessa fordæmalausu ákvörðun og fara í þessa óvissuferð. Lengi mætti telja upp setningar af sama meiði. Ef hv. þingmaður upplifir það að þeir sem þannig tala telji sig vera með fast land undir fótum vildi ég ekki vera með honum þar sem staðan er raunverulega ótrygg.