149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:22]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ágæta ræðu. Hann kom inn á það áðan hvað væri skrifað í orkupakkann sjálfan, í andsvari reyndar, og það hafa verið margar ræður fluttar um það og flestar eru þess eðlis að það er mjög þröngt horft á textann. Mig langar til að ræða aðeins um innri markað og gerðir Evrópusambandsins sem lúta einkum að sérleyfis- og samkeppnisþáttum og jöfnu aðgengi og markaðsbúskap í raforku- og jarðgasviðskiptum. Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir að með þriðju orkutilskipuninni sé gengið lengra í að stuðla að virkum raforkumarkaði með því að tryggja aðskilnað á eignarhaldi í flutningsstarfsemi frá markaðsaðilum og raforkueftirlit eflt með ýmsum úrræðum og sjálfstæði þess tryggt. Þetta er mjög opið ákvæði. Hvernig skyldi vera rétt að túlka slíka yfirlýsingu? Ég get ekki skilið það öðruvísi en að ef það á að tryggja virkan markað þá er næsta víst að 80–90% markaðshlutdeild myndi vera álitin einokun eins og t.d. í tilfelli Landsvirkjunar.

Í reglugerð 713/2009 segir m.a.:

„Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum Bandalagsins á sviði orku. Mat á áhrifum tilfanga, sem miðlæg stofnun þarf, leiddi í ljós að óháð, miðlæg stofnun hafði til langs tíma litið fjölmarga kosti umfram aðra valkosti. Stofna skal Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði“ — sem er ACER — „til að bæta gloppur í löggjöfinni á vettvangi Bandalagsins og stuðla að skilvirkri starfsemi innri markaða fyrir raforku og jarðgas. Stofnunin skal einnig gera landsbundnum eftirlitsyfirvöldum kleift að auka samvinnu sína á vettvangi Bandalagsins og taka gagnkvæman þátt í bandalagstengdri starfsemi.“

Telur hv. þingmaður langt seilst að ræða við þessa umræðu framtíðarskipan orkumála og möguleg áhrif samþykktar orkupakka þrjú?