149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:27]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Varðandi það að engar hindranir séu fyrir hendi má velta því fyrir sér hvað hindranir geta verið. Ég ætla kannski fá að gera það að umræðuefni í ræðu síðar í kvöld sem ég á eftir að halda, sem fjallar um skýrslu um orkupakka fjögur sem er bein afleiðing og eðlilegt framhald af því sem við erum að gera hér. Þar er t.d. fjallað um möguleika til tengingar inn á flutningskerfi raforku. Þar blasir við að aðilar sem framleiða raforku geta gert kröfu um að fá að tengjast inn á flutningskerfi, jafnvel þó að flutningsgetan sé ekki til staðar. Það myndi þá koma í hlut ríkisins að byggja upp flutningskerfi til að geta annað þeirri þörf til að koma orkunni á markað. Þetta mun hafa áhrif á okkur Íslendinga því að það erum við sem fjármögnum þetta.

Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur (Forseti hringir.) af því að við séum ekki nógu langt komin í umræðunni um framtíðarskipan orkumála?