149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:28]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ber virðingu fyrir ítrekuðum kvörtunum forseta. Mér finnst okkur bara vanta meiri tíma til að ræða þetta, ég verð að segja eins og er.(Gripið fram í.)

Ég get ekki sagt að ég hafi sérstakar áhyggjur af því. Mér finnst það bara svolítið vera staðan. Við verðum þá bara að ræða það áfram eins lengi og við þurfum, stöðu orkumála, nú og seinna. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki skoðað fjórða orkupakkanum. Hann er ekki hér til umræðu. En ég er alveg opinn fyrir öllum sjónarmiðum í því. Það mál kemur reyndar til með að vekja áhuga minn á því vegna þess að mér finnst orkumál mjög áhugaverð í kjölfar þess að hafa kynnt mér þetta tiltekna mál.

Aftur á móti hef ég ekki trú á því, með þessum fyrirvara, að fjórði orkupakkinn, frekar en aðrir, skyldi stjórnvöld til þess að byggja einhver mannvirki eða grunnvirki. Ég veit ekki til þess að það hafi gerst og ég hef ekki trú á því að það geti verið innan valdsviðs EES eða ESB. Mér finnst slíkt alltaf hljóta að vera ákvörðun staðbundinna yfirvalda, í þessu tilfelli Alþingis hvað varðar sæstreng til Evrópu. (Forseti hringir.) Ég hef ekki séð nein gögn gegn þeirri túlkun minni enn þá. (Forseti hringir.) En ég er opinn fyrir umræðunni og hlakka til að ræða fjórða orkupakkann (Forseti hringir.) hvenær sem verður þörf á því.

(Forseti (ÞorS): Nóg er nóttin, sagði draugurinn.)