149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:30]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er áhugaverð umræða og ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna, sem tók á ansi mörgum hlutum. En það sem ég hjó sérstaklega eftir var stjórnarskrárákvæðið sem lagt var fram í tillögum stjórnlagaráðs. Það sem ég er að velta mest fyrir mér er: Á hvaða hátt er sú tillaga stjórnlagaráðs öðruvísi en sú tillaga sem liggur núna inni í samráðsgátt stjórnvalda þar sem verið er að velta fyrir sér stjórnarskrárákvæði um umhverfisvernd? Hver er munurinn? Þar er fjallað um auðlindir og veitingu heimilda. Það eru svokallaðir nýtingarsamningar. Ég velti þá fyrir mér í þessu sambandi hvort hv. þingmaður hafi eitthvað skoðað þetta og hvort hann telji hreinlega þá tillögu sem liggur inni í samráðsgáttinni vandaða og hreinlega hvert hún muni leiða okkur, hvort þetta sé eitthvað sem við þurfum að skoða betur.