149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:35]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg samhengið milli EES og þess sem varðar gjaldtöku fyrir nýtingu á auðlindum. Ég hef náttúrlega skoðað þessi tvö atriði á kannski svolítið ólíkum vettvangi og hef ekki sett þetta í samhengi, enda veit ég satt best að segja ekki alveg hvað EES-samningurinn ætti að hafa að segja um það. Ég veit ekki hvers vegna hann myndi gera það. Ég veit ekki hvers vegna EES eða ESB myndi hafa áhuga á því. Ég fatta það ekki alveg, vegna þess að ESB er ekki eitthvert fyrirtæki sem vill græða sem mestan pening. Þetta er alþjóðleg stofnun sem er samansett úr mörgum þjóðríkjum sem eru að reyna að koma sér saman um einhverjar reglur til að stefna að einhverjum sameiginlegum gildum til að þessi 500 milljóna manna markaður plús virki sem best. Það er annað en einfaldlega að setja eitthvert gjald og taka peninga af einhverjum þjóðum. Ég sé það ekki alveg þannig.

En hvað gjaldtökuna varðar sem rædd hefur verið í sambandi við auðlindaákvæðið er ekki loku fyrir það skotið að eðlileg gjaldtaka af einhverri auðlind geti verið lág eða jafnvel engin, fer eftir eðli (Forseti hringir.) auðlindarinnar og hvernig skal nýta hana. En ég sé ekki alveg samhengið við EES, verð ég að viðurkenna, virðulegi forseti.