149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:36]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir ræðuna. Nú liggur fyrir að þessir meintu fyrirvarar, sem við efasemdarfólk um innleiðingu þessa pakka höfum kallað svo, eru til að mynda, sumir hverjir, breytingar á raforkulögum sem snúa að Orkustofnun annars vegar og lagningu sæstrengsins hins vegar, svo við tökum tvö efnismestu atriðin út úr lagabreytingunum sem fram undan eru.

Nú hefur hv. þingmaður starfað við forritun um langa hríð. Um slíkt veit ég lítið, en mér er sagt að það skipti miklu máli að hlutir gerist í réttri röð í þeim bransa. Er það ekki kostur? (Gripið fram í.)

Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann: Nú getur, að þessari þingsályktun samþykktri, utanríkisráðherra innan dagsins gefið út innleiðingarreglugerðina þannig að öll atriði er snúa að reglugerðinni verði orðin virk en lagabreytingarnar eru ókláraðar. Hver er skoðun hv. þingmanns á því að hlutirnir séu gerðir svona í svolítið rangri röð, í trausti þess að lagabreytingafrumvörpin verði kláruð, svona bara af því menn eru búnir að lofa því? Því það er auðvitað þannig að meiri hluta þeirra þingmála sem eru í nefndum núna mun daga þar uppi. Það held ég að sé alveg augljóst miðað við þann mikla fjölda sem er þar inni. Ég er nokkuð viss um að forseti hristir ekki einu sinni hausinn þegar ég held því fram.

(Forseti (SJS): Forseti er bara að hugsa um tímamörkin.)