149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í forritun er nú yfirleitt ekki einhver ein ákveðin tímaröð nauðsynleg. Hlutirnir geta gerst á mismunandi hátt, eftir því hvað menn eru að gera hverju sinni. Mér finnst það vera alveg eins með þetta. Ef ég á vera alveg hreinskilinn er ég ekki alveg viss um að líkingin eigi við.

Ég sé ekki alveg þennan punkt með að þetta gerist ekki í réttri röð. Fyrirvarinn sem er settur er ekki til þess að EES fái eitthvað að frétta af því hvort ákvæði séu í gildi hérna eða ekki. Það bara liggur í hlutarins eðli að þessi ákvæði gilda ekki á Íslandi á meðan enginn er sæstrengurinn, vegna þess að þetta eru ákvæði sem varða bara þær aðstæður þar sem sæstrengur er þegar kominn. Hins vegar er það álit fræðimanna að það geti verið stjórnarskrárlegur vafi í sambandi við þessar valdheimildir sem fara til EES samkvæmt 7.–9. gr. reglugerðar nr. 713/2009.

Nú er alveg rétt að halda því til haga í kjölfar allrar þessarar umræðu að það eru alls ekki allir fræðimenn á þessari skoðun. Það eru frekar svona svokallaðir íhaldssamari fræðimenn og ég er ekki sammála þeim. Ég tel fyrirvaranna ekki þörf vegna þess að ég tel þetta ekki brjóta í bága stjórnarskrá, vegna þess að ég tel valdframsalið vera skýrt afmarkað og á afmörkuðu sviði, eins og það heitir á fræðimálinu. Mér finnst það meira að segja mjög skýrt og ég gæti tekið til nákvæmlega hvaða efnisatriði það eru í 8. gr. reglugerðarinnar sem ég er ósammála hv. fræðimönnum um sem afmarka þessi tilteknu atriði, þ.e. hvort valdheimildirnar séu skýrar og á afmörkuðu sviði.

Lagalegu rökin fyrir fyrirvörunum er hins vegar þau að jafnvel þótt greinarnar taki ekki til framkvæmda á Íslandi án sæstrengs eigum við samt að hafa löggjöfina á Íslandi í samræmi við stjórnarskrá, jafnvel þótt ekki reyni á hana. Þetta er meira svona — hvað á ég að segja? Sem forritari mundi segja: ákveðin fagurfræði. Maður vill hafa hlutina hreina. Og fyrirvararnir eru til þess. Þeir eru fyrir (Forseti hringir.) Ísland. Þess vegna er þetta kallað til heimabrúks á Íslandi eða uppnefnt svo, það er vegna þess að þetta kemur því ekki við hvað EES finnst um málið. Þetta snýst um það hvort lögin sem við setjum (Forseti hringir.) séu í samræmi við stjórnarskrá. Og núna er óumdeilt (Forseti hringir.) meðal fræðimanna að svo sé.