149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef það lægi fyrir einhver áætlun núna eða samþykkt Alþingis um að leggja sæstreng væri ég sammála hv. þingmanni. En svo er ekki. Þannig að þegar við segjum „fresta“ í þessu samhengi erum við að segja að stjórnarskrárlegi vafinn komi málinu ekki við fyrr en það verður ákveðið að leggja sæstreng, sem er alls kostar óvíst að nokkurn tíma verði. Ég vona að það verði aldrei, að svo stöddu. Sjáum til hvað 20 ára loftslagsbreytingar hafa um það að segja, reyndar. En það liggur ekki fyrir nein ákvörðun eða áætlun um að leggja sæstreng. Þess vegna sé ég ekki að þarna sé neitt í rangri röð. Málflutningur hv. þingmanns gerir svolítið ráð fyrir því að það verði lagður sæstrengur, að það sé búið að ákveða það.

En það sem ég held hins vegar að gerist með því að þessu vafaatriði sé „frestað“ er að þá kemur það mál upp ef tillaga kemur hingað til umræðu um að leggja sæstreng, sem ætti þá að torvelda öll þessi hræðilegu vandamál, verðlagshækkanir og allt það, sem andstæðingar þessa máls hafa svo miklar áhyggjur (Forseti hringir.) af. Ég hefði haldið að það mundi aðeins róa hv. þingmenn að vita að þetta mál torveldar lagningu sæstrengs (Forseti hringir.) og þar með þau vandamál sem hv. þingmenn hafa mestar áhyggjur af.