149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:10]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni fyrir ágæta ræðu. Ég missti af smáhluta hennar en hv. þingmaður kom inn á, í seinna andsvari sínu við hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, áhyggjurnar sem margir hafa af þróun verðlagningar á innanlandsmarkaði eftir að tenging er komin á við markað erlendis, hver sem tímasetningin verður á því.

Það er alveg ljóst að hv. þingmaður taldi ekkert annað í stöðunni en að umtalsverð hækkun kæmi til eftir að tenging væri komin á. Fyrst hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson hefur nú, þó að ekki sé á neinn annan hallað, borið hagsmuni öryrkja og þrönga stöðu þeirra sérstaklega fyrir brjósti, hvernig horfir við þingmanninum hlutfallsleg aukning kostnaðar þessara hópa sem kannski síst hafa það, samanborið við þá sem hafa svolítið borð fyrir báru?