149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:12]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Jú, það verður bara að segjast alveg eins og er að það yrði þungt högg fyrir þá sem minnst hafa hér á landi ef tenging yrði, vegna þess að allar hækkanir, hversu litlar þær eru, eru of miklar fyrir þennan hóp. Við verðum líka að átta okkur á því að þessi hópur situr alltaf eftir. Hann fær ekki lögbundnar hækkanir sem aðrir fá og það er búið að lýsa því nú þegar yfir hér á þingi að þessi hópur fái ekki lífskjarasamninginn. Þessi hópur fær ekki lífskjarasamninginn 1. janúar á næsta ári og fær hann ekki afturvirkt. Hann fær einhvern uppreiknaðan pakka, eins og vanalega.

Þess vegna er mér mjög erfitt að kyngja því að á sama tíma séum við með þessa hreinu orku sem við höfum. Við erum ekki tengd Evrópu og við getum nýtt þessa orku og eigum að nýta hana fyrir okkur. Við eigum að hvetja t.d. bændur úti um allt land til að fara út í ræktun, gróðurhús, einhverja ræktun. Við eigum að nýta þessa orku til að framleiða hrein matvæli fyrir okkur. Við eigum að sjá til þess að þeir geti sem vilja. Við höfum drifkraft í ungu fólki sem vill hefja búskap. Það þarf eitthvað meira til. Við vitum að það er orðið skelfilega erfitt fyrir þessa einstaklinga að lifa kannski bara af sauðfjárbúskapnum. Þess vegna eigum við einmitt að nýta þessa orku til þess að skapa þeim framtíðarvinnu sem skilar (Forseti hringir.) hreinni matvælum og öðru á sem hagkvæmastan hátt þannig að við verðum bara samkeppnisfær og gætum farið að selja erlendis.