149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:17]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hún var áhugaverð. Hann kom í ræðu sinni inn á upphafsmenn raforkukerfisins, þ.e. forfeður okkar, og margir eru enn lifandi, sem tóku upp á því að byggja upp virkjanir og flutningsnet fyrir raforku til að geta fóðrað íslensk heimili og veitt stöðuga raforku til að hægt væri að laða að bæði innlenda og erlenda fjárfestingu, til að skapa góð störf, vel launuð störf til frambúðar. Það hafi verið tilgangur og markmið þess að fara í virkjunarframkvæmdir og að beisla fallvötnin.

Nú má vera að eitthvað hafi breyst í tímans rás með tilgang og markmið og vissulega er það svo, en í grunninn virðist það vera vilji þorra almennings að halda þessu áfram sem svo, að þetta verði fyrst og fremst til hagsbóta fyrir Ísland og íslensku þjóðina og þau fyrirtæki sem kjósa sér að starfa hér, lögaðila á Evrópska efnahagssvæðinu sem kjósa sér að starfa á Íslandi.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvað hann telji að valdi þessari hörðu afstöðu utanríkisráðherra og stjórnarliða almennt sem, ég leyfi mér að nota orðið að böðla þessu máli í gegn á þennan hátt þegar önnur leið er fær, þ.e. önnur leið sem myndi eyða þessari lagalegu óvissu. Allir sem koma að málinu virðast vera sammála um það hver niðurstaðan ætti að vera, bæði Alþingi, stjórnarliðar, þeir sem eru á móti orkupakkanum og hins vegar EES og Evrópusambandið. Það er búið að gefa út yfirlýsingar um að ekkert sé því til fyrirstöðu að Ísland innleiði ekki þessar reglugerðir eða geri það með einhverjum fyrirvara. Af hverju förum við ekki leiðina sem er lagalega fær?