149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:19]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég verð bara að segja eins og er að ég skil það ekki. Þetta er eiginlega óskiljanlegt í því ljósi að enginn af þeim flokkum sem eru í ríkisstjórn vill inn í ESB. Þess vegna er þetta gjörsamlega óskiljanlegt fyrirbrigði. Af hverju á að þvinga þessu í gegn? Þá spyr ég: Vilja þeir ekki inn í ESB fyrir kosningar en eru tilbúnir til þess að gleypa allt frá ESB þess á milli? Koma svo aftur við næstu kosningar og segja: Nei, nei, við viljum ekki í ESB en erum alveg tilbúnir að láta það fá orkuna og erum tilbúnir að sleppa hendinni af öllu sem varðar þjóðarauð okkar, sem er orkan. Aðalþjóðarauður okkar er vatnsorkan, raforkan.

Ég fékk það á tilfinninguna að þessi ríkisstjórn væri að keyra út í einhverja ESB-hyldýpismýri og ætlaði bara spóla þar og vera þar. Það er mér gjörsamlega óskiljanlegt að það skuli ekki vera farið að hringja neinum viðvörunarbjöllum, að við séum ekki farin að spyrja okkur að því: Hvenær ætlum við að kyngja endalausum EES-reglugerðum og tilskipunum án þess að æmta eða skræmta? Ætlum við bara að segja: Ókei, við tökum þetta bara næst? Við samþykkja þennan pakka og tökum svo bara umræðuna um fjórða pakkann, tyggjum hann í einhver ár og kokgleypum hann og tökum svo bara þann næsta. (Gripið fram í.) Á endanum verðum við búin með allan ESB-fílinn í smábitum. Ég spyr stjórnarþingmenn: Er ekki einfaldara að lýsa því bara yfir, förum inn í ESB? Hættum að taka þetta í bitum. Tökum hann bara í einum bita, allan fílinn.