149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:21]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Já, þetta er góð spurning, hvort það væri ekki hreinlega heiðarlegra að lýsa því yfir, þvert á fyrri sannfæringu þessara flokka í kosningum, að það sé kannski best að taka skrefið alla leið. Ég get alveg borið virðingu fyrir því sjónarmiði ef fólk vill fara inn í Evrópusambandið. Það er bara annað sjónarmið en það sem ég hef kannski persónulega.

En það sem ég velti fyrir mér er: Ætli það væri annað uppi á teningnum ef við værum hér í dag að ræða til að mynda uppskiptingu á vinnslu og veiðum, þ.e. í fiskveiðistjórnarkerfinu, ef það væri undir? Við fengum undanþágu með sjávarútveginn þegar við sömdum um EES. En ef núna væri kominn nýr fiskveiðistjórnarpakki, ef við tölum um það í einhverri myndlíkingu, ætli þessir sömu flokkar myndu keyra jafn hart á að það yrði gert með þessum hætti? Eða ætli þeir myndu kannski fara aðra leið?