149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:44]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar rosalega mikið í nokkur andsvör við hv. þingmann. Það er margt sem mig langar til að athuga við ræðu hv. þingmanns og spyrja hv. þingmann út í, þó meira kannski til að leiðrétta þann misskilning sem ég fann í ræðu hv. þingmanns.

Ég vil halda mig eitthvað eitt til þess að halda umræðunni hnitmiðaðri. Hv. þingmaður sagði að það væri alveg nóg fyrir hann ef einn sérfræðingur teldi þetta hugsanlega stangast á við stjórnarskrá. Mig langar í stuttu máli að spyrja hv. þingmann hvort það sé einhver sérfræðingur, að honum vitandi, sem telji þetta mál eins og það er lagt fram núna, með þessum fyrirvörum, ekki án þeirra heldur með þeim, stangast á við stjórnarskrá.

Ástæðan fyrir því að ég legg áherslu á þetta mál með þessum fyrirvörum er sú að þegar ég hef spurt aðra hv. þingmenn í sama flokki og hv. þingmaður er í, Miðflokknum, hafa þeir gjarnan nefnt álit sem kom frá hinum títtnefndu fræðimönnum — en það var álit gagnvart pakkanum áður en þetta mál kom fram, áður en fyrirvararnir voru settir inn. Eftir að þetta mál kom fram og fyrirvararnir voru settir inn voru þessir tveir sérfræðingar sammála um það, eins og kemur fram skýrt í skrifaðri umsögn þeirra, að það væri enginn lögfræðilegur vafi á því að sú leið sem hér er farin væri í samræmi við stjórnarskrá. Þannig að að mér vitandi er enginn sérfræðingur sem hefur sent inn umsögn til nefndarinnar eða talað við nefndina sem er þeirrar skoðunar að það sé nokkur vafi á því að þetta mál standist stjórnarskrá eins og það er.

Ég átta mig á því að það er alveg hægt að tala meira en málið. Það er hægt að tala um hvað ef við leggjum sæstreng seinna. Það er hægt að tala um að það sé hægt að fresta vandamálunum. Já, en þá er alla vega skýrt að við séum að fresta vandamálinu og það sé enginn vafi á því að þetta mál standist stjórnarskrá.

Ég ítreka bara spurninguna: Er hv. þingmaður meðvitaður um einn einasta sérfræðing sem er þeirrar skoðunar að það sé einhver vafi á því að þetta mál (Forseti hringir.) standist stjórnarskrá? Mér þætti vænt um að fá nafn þess sérfræðings, virðulegi forseti.