149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf nú að valda hv. þingmanni vonbrigðum með því að ég get ekki verið hér miklu lengur vegna þess að ég þarf að fara heim til mín og sinna fjölskylduskyldum. En, engar áhyggjur, hv. 10. þm. Suðurkjördæmis Smári McCarthy kemur í stað mín og mun hér halda uppi í fjörinu, væntanlega langt fram á nótt, geri ég ráð fyrir.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og mun kynna mér þá umsögn sem ég rekst á í kjölfar svars hv. þingmanns, umsögn frá Eyjólfi Ármannssyni. Ég mun einfaldlega að gera það og kynna mér það og vonandi komast aftur í ræðu um þetta mál. Ég vona nú að ekki þurfi allir að hanga hér langt fram á nótt, en ég vona vissulega að við getum rætt þetta meira.

En mig langar þá að spyrja hv. þingmann aðeins út í þessa fyrirvara, vegna þess að hann talaði um týndu fyrirvarana.

Nú er fyrirvarinn tilgreindur í greinargerðinni sem fylgir þingsályktunartillögunni og fyrirvarinn eins og hann mun koma fram í 3. gr. reglugerðar var sendur til atvinnuveganefndar síðasta föstudag. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður fengið aðgang að þeirri útgáfu, en hann er mjög skýrt tilgreindur þar. Ég vildi að ég hefði tíma til að lesa hann.

En ég er að velta fyrir mér hvað mundi duga (Forseti hringir.) fyrir hv. þingmann. Mundi það duga að setja fyrirvarann inn í meginefni tillögunnar sjálfrar? Væri það til bóta? Vegna þess að hann mun vera í reglugerðinni, það er búið að sýna fram á það; hann er í greinargerð þingsályktunartillögunnar. Það stendur svart á hvítu þar og við höfum öll aðgang að þeim (Forseti hringir.) upplýsingum. Það eina sem mér dettur í hug sem gæti neglt þetta betur inn (Forseti hringir.) er að setja hann í meginefni þingsályktunartillögunnar. (Forseti hringir.) Hv. þingmaður getur stungið upp á (Forseti hringir.) þeirri breytingu eða ég. Mundi það duga, hv. þingmaður?

(Forseti (BHar): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða tímamörkin.)