149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:52]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég efast ekki um að virðulegur forseti sé sammála mér um það að þetta hafi verið einstaklega áhugaverð ræða og gott að hv. þingmaður skuli nú loks fá tækifæri til að flytja sína fyrstu ræðu um þetta mál. Ég vona að hv. þingmaður og herra forseti, Steingrímur J. Sigfússon, fái líka tækifæri til að flytja ræðu í þessari umræðu enda hefur hann varpað ljósi á eitt og annað á fyrri stigum innleiðingar raforkumála Evrópusambandsins.

Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson hafi boðið upp á það sem kalla mætti hlaðborð álitaefna og atriða sem eru sannarlega umhugsunarverð svoleiðis að maður veit varla hvar maður á að byrja í fyrirspurn til hv. þingmanns sem flutti hér ræðu sem var í senn skemmtileg, upplýsandi og hugljúf.

Eitt af því sem sló mig og er reyndar atriði sem ég hef velt fyrir mér fyrr í þessari umræðu er þegar hv. þingmaður nefndi, ef ég skildi hann rétt, þann hóp í samfélaginu og öðrum samfélögum sem einhvers staðar var kallaður hinir fyrirlitlegu. Það er sá hluti almennings sem virðist ekki eiga rétt á að hafa skoðun á gangi mála. Ég velti fyrir mér: Hvert er mat hv. þingmanns á því? Hvers vegna er það svo í þessu máli að þeir, sem telja sig vita betur en aðrir, telja að a.m.k. mjög stór hluti almennings, meiri hluti almennings samkvæmt könnunum, hafi nánast ekki rétt á því að hafa skoðun á málinu, a.m.k. ekki rétt á því að fá sína niðurstöðu í það?