149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:54]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Mér er ljúft að verða við henni. Jú, ég hef haft þá tilfinningu í þessu máli og það tengist kannski því að það er verið að tengja þetta mál máli eins og Brexit í Englandi. Menn hafa ekki þreyst á því í ræðu og riti að segja: Það var bara eitthvert ómenntað fólk sem greiddi atkvæði með Brexit, hinir vildu vera kyrrir í sæluríkinu.

Eins og ég minntist á áðan hafa gildandi hópar sett sig upp á móti þessu samkomulagi. Það er allt saman fólk sem á það sameiginlegt að vinna töluvert mikið með höndunum, bakarar, garðyrkjumenn, ASÍ, ég held ég hafi gleymt þeim í upptalningunni áðan, ASÍ. Þetta er fólk sem veit að með því að hætta sé á því að við afsölum okkur valdi yfir orkulindum okkar muni það koma okkur í koll vegna þess að það mun hækka hjá okkur rafmagnsreikninginn eins og gert hefur verið áður þrátt fyrir það sem menn hafa haldið fram. Ég bíð eftir því að einn ágætur félagi minn í Miðflokknum, hv. þm. Birgir Þórarinsson, komi hér með rafmagnsreikning út af sínum kyndingarkostnaði sem tvöfaldaðist einmitt þegar skipt var upp samkvæmt orkupakka tvö.

Það er þetta fólk sem mun finna á eigin skinni afleiðingarnar af því ef við förum fram með þeim hætti sem lagt er til í þessari þingsályktunartillögu. Það eru aftur á móti aðrir sem tilheyra öðrum hópum sem við gætum kallað menntaelítu, við gætum talað um embættismannakerfið, við gætum talað um menn og konur sem eru ekki í beinni hættu af því að verða fyrir óþægilegum áhrifum af þessum gjörningi. Þeir sem hins vegar sjá fyrir sér að þeir verði það, þetta mun hafa áhrif á líf þeirra, mun hafa áhrif á kjör þeirra, eru þeir sem rísa upp. Það er fólkið í landinu. Það er hinn almenni Íslendingur sem hefur bæði staðið út á velli og verið hér uppi á pöllum.