149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:57]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það væri hægt að spyrja heilmikið meira út í þetta tiltekna atriði en hv. þingmaður nefndi svo margt í ræðu sinni að ég þarf að komast yfir fleira. Hv. þingmaður nefndi m.a. álit Carls Baudenbachers, fyrrverandi dómara við EFTA-dómstólinn sem nú er sjálfstæður ráðgjafi. Baudenbacher er maður sem ég hef mikið álit á og myndi kalla vin minn, en við erum ekki pólitískir samherjar. Það kom mér töluvert á óvart þegar ráðherra Sjálfstæðisflokksins fékk þann tiltekna mann til þess að veita pólitískt álit og auk þess ráðherra frá Framsóknarflokki og jafnvel Vinstri grænum. Er hv. þingmaður sammála mér um það, vegna þess að hann nefndi þetta atriði, að ef mat Baudenbachers er rétt, þ.e. að Norðmenn líti á Íslendinga sem einhvers konar fylgifiska, þjóð með aukaaðild að EES-samningnum, (Forseti hringir.) að þess heldur beri okkur að nota það tækifæri sem nú gefst til að árétta að við séum þar á jafnréttisgrundvelli?