149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:59]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Sem áhugamaður um sögu og staðreyndir — þingmaðurinn kom inn á að hann taki þær ákvarðanir sem komi Íslandi best — ætla ég að fá að lesa upp úr þingskjali 972, sem er nefndarálit með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum, frá meiri hluta atvinnuveganefndar.

Með leyfi forseta, stendur:

„Með frumvarpinu er lagt til að 22. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/72/EB um sameiginlegar reglur fyrir innri markað raforku verði innleidd hér á landi. Í tilskipuninni eru sameiginlegar reglur um framleiðslu, flutning, dreifingu og afhendingu rafmagns og ákvæði um neytendavernd. Markmið tilskipunarinnar er að bæta og samþætta samkeppnishæfa raforkumarkaði innan bandalagsins.“

Undir þetta ritar hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson. Og sömuleiðis, þegar þetta mál var lagt fyrir var á græna takkanum hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, þá utanríkisráðherra, hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi forsætisráðherra.