149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:00]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að koma fram með þetta mál hér. Þetta er einn af þeim draugum sem dreginn hefur verið upp, sem talað hefur verið um að þeir sem hér standa núna hafi verið forgöngumenn um að þessi pakki yrði tekinn hér upp. Mig langar að vitna til ræðu utanríkisráðherra á sínum tíma fyrir málinu. Þar segir um þetta sama mál, eins og hv. þingmaður talaði um, með leyfi forseta:

„Taka ber hins vegar fram að umrædd tilskipun hefur ekki enn verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og sem slík er tilskipunin ekki grundvallarástæða þessa frumvarps. Engu að síður þótti rétt, eins og bent var á í áðurnefndri skýrslu, að hafa hliðsjón af ákvæðum 22. gr. tilskipunarinnar að því er varðar kerfisáætlun flutningsfyrirtækisins.“

Þetta er úr ræðu utanríkisráðherrans á sínum tíma fyrir þessu máli. Jú, það er rétt að þarna var verið að samþykkja kerfisáætlun um flutning á rafmagni innan lands. Og veitti nú ekki af vegna þess að hringlínan eins og hún er núna er eins og léleg jólasería. Það sést kannski best á því að þegar rof varð á henni á Reykjanesi fyrir einu og hálfu ári síðan var alþjóðaflugvöllurinn úti í nokkrar mínútur.

Þannig er ástandið á flutningskerfi raforku á Íslandi. Nú er verið að bæta þar í. Sá hluti tilskipunarinnar sem þarna var tekin upp — ég vitna aftur til orða ráðherrans — var settur til þess að bæta dreifingu á raforku innan lands á Íslandi. Hann var ekki tekinn upp til að framselja vald yfir auðlindum þjóðarinnar til samevrópskrar stofnunar. Þetta frumvarp var ekki sett fram til þess að ganga í berhögg við stjórnarskrá Íslands eða þenja hana eins langt út og hægt var. Þetta var sett fram til þess að laga dreifingu á rafmagni innan lands.