149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:05]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Umræðurnar um þriðja orkupakkann á undanförnum vikum og mánuðum hafa snúist um margt. Þær hafa snúist um lögfræðileg álitamál sem tengjast fullveldi þjóðarinnar og framsali fullveldis, þær hafa snúist um uppskipti orkufyrirtækja í ríkiseigu og hvort áform séu um einkavæðingu þeirra. Þá hafa vaknað spurningar um jarðakaup útlendinga og virkjunarrétt á þeim jörðum og loks hvort við hæfi sé að utanríkisráðherra kalli eftir áliti erlends sérfræðings sem gegnt hefur trúnaðarstörfum í hinu samevrópska kerfi sem hefur verið að þróast frá stríðslokum.

Í bakgrunni þessara umræðna er svo sú stóra spurning hvort Ísland geti búist við refsiaðgerðum af hálfu Evrópusambandsins ef við höfnum þriðja orkupakkanum. Sá utanríkisráðherra sem hafði forystu um EES-samninginn af okkar hálfu fullyrðir að sá samningur geri beinlínis ráð fyrir því að aðildarríki hans geti hafnað. Í Morgunblaðinu birtist grein eftir Sturlu Böðvarsson, fyrrverandi þingmann og ráðherra Sjálfstæðisflokksins, og segir hann, með leyfi forseta:

„Það er óforsvaranlegt að samþykkja þriðja orkupakkann án þess að það liggi fyrir hvað gerist á orkumarkaði á Íslandi þegar sæstrengur hefur verið lagður og orkusalan hefst. Það hefur eitt og sér engan tilgang að við ráðum því hvort sæstrengur verði lagður ef orkumarkaðsmálin verða um leið tekin úr okkar höndum þegar sala hefst um sæstreng. Þessari spurningu verða ráðherrar að svara áður en lengra verður haldið enda virðist Landsvirkjun gera ráð fyrir lagningu sæstrengs svo sem sjá má á heimasíðu félagsins.“

Það væri náttúrlega gaman, virðulegi forseti, ef utanríkisráðherra væri hér einhvern tíma með okkur eða að einhver ráðherra yfir höfuð sæi ástæðu til að vera með okkur í umræðunni. Hvað gerist þegar og ef sæstrengur hefur verið lagður? Er það rétt eða rangt að þá falli skipulag og rekstur orkumála okkar, þ.e. nýting á orku fallvatnanna á Íslandi, einnar helstu auðlindar íslensku þjóðarinnar, undir regluverk Evrópusambandsins? Það væri frábært að hafa hæstv. utanríkisráðherra akkúrat núna til að svara þeirri spurningu.

Nýleg skoðanakönnun MMR sýnir að um helmingur þjóðarinnar er andvígur samþykkt orkupakkans, tæpur þriðjungur er honum fylgjandi. Sama könnun sýnir að andstæðingar orkupakkans eru stærstu hóparnir í öllum stjórnmálaflokkum. Opinberar yfirlýsingar margra þingmanna Sjálfstæðisflokksins sýna að í þeim hópi var sterk andstaða við samþykkt orkupakkans og þar var formaður flokksins fremstur í flokki. Með leyfi forseta ætla ég bara hreinlega að vísa í hann, sem ég hef nú gert áður:

„Veltum því fyrir okkur hvað við höfum með það að gera á innri markaði Evrópu að vera að ræða raforkumál sem eru í eingangruðu mengi á Íslandi úti í Brussel. Hvað höfum með það að gera að vera að ræða við önnur ríki Evrópusambandsins raforkumál af eyjunni Íslandi? Er það mál sem varðar innri markaðinn með beinum hætti, þegar engin er tengingin?“

Síðan segir hann:

„Það sem ég á svo erfitt með að skilja er áhugi sumra þingmanna að komast undir boðvald samevrópskra stofnana. Hvað í ósköpunum liggur mönnum á að komast undir sameiginlega raforkustofnun Evrópu á okkar einangraða landi með okkar eigið raforkukerfi? Hvers vegna í ósköpunum hafa menn áhuga á því að komast undir boðvald þessara stofnana?“

Hann spyr hvort ástæða sé til að ganga lengra og segir, með leyfi forseta:

„Mér finnst vera svo mikið grundvallaratriði að við skilgreinum hvað séu innrimarkaðsmál sem við viljum sinna sérstaklega undir EES-samningnum og hvað séu mál sem tengjast ekki beint innri markaðnum. Hérna erum við með kristaltært dæmi um það, raforkumál Íslands eru ekki innrimarkaðsmál.“

Það er í rauninni athyglinnar virði hvernig við höfum talað um orkupakka þrjú eins og hann sé í rauninni aðalmálið. Mér hefur persónulega fundist skorta á það að hér sé tekið heildstætt mat, að við tökum hinn eiginlega samning, 25 ára samning um Evrópska efnahagssvæðið sem við höfum farsællega verið aðilar að í aldarfjórðung, og látum á það reyna hver hin eiginlega samningsstaða okkar er varðandi samninginn.

Hvers vegna skyldum við ekki fara eftir t.d. ráðleggingum? Við fengum tvær ráðleggingar frá þeim ágætu fræðimönnum og lögspekingum, Stefáni Má Stefánssyni og Friðriki Árna Friðrikssyni Hirst. Þeir koma með tvær tillögur um það hvernig við ættum að bera okkur að varðandi innleiðingu á þessum orkupakka. Í rauninni kom það skýrt fram í tali þeirra fyrir hv. utanríkismálanefnd að önnur tillagan var lögfræðilega mun hagkvæmari en hin. Hún var sú að láta reyna á það strax fyrir EES-nefndinni hvort við gætum ekki farið fram á það að vera algerlega undanþegin þessum orkupakka.

Hvernig hefði EES tekið á því? Hvers vegna skyldum við láta reyna á það þegar við erum búin að innleiða orkupakkann þegar kemur að því að aflétta hinum svokölluðu stjórnskipulegum fyrirvörum, sem ég ætla nú hreinlega ekki að fara í? Ég er búin að nefna áður að það hefur komið fram fyrir utanríkismálanefnd hversu öflugir þeir eru og hversu miklu vatni þeir halda. Þá spyr ég. Hvers vegna erum við að fara þessa leið? Mér er algerlega ómögulegt að skilja það.

Það var líka virkilega athyglisvert sem kom fram um ákvæði 32. gr. þessara raforkutilskipunar. Það kom glögglega fram hjá fræðimönnunum fyrir utanríkismálanefnd hvað akkúrat þetta ákvæði felur í sér. Meginreglan er að aðgangur sé tryggður að flutnings- og dreifikerfi og að gjaldskrá sé beitt hlutlægt og án mismununar. Þetta er beint úr áliti Skúla Magnússonar, prófessors og lögspekings.

Það sem við tölum svo mikið um hér, sæstrengur eða ekki sæstrengur, þriðji orkupakkinn, fyrsti, annar er ekki það sem skiptir máli. Við eigum að einblína á hvert sé hið eiginlega markmið með innleiðingu orkupakkanna. Eiginlega markmiðið er sameiginlegur innri raforkumarkaður í Evrópu, það er ekkert flóknara en það. Hvers vegna skyldum við vera að færa okkur þangað? Af hverju? Hverjir eru hagsmunirnir? Eigum við ekki frekar að velta upp þeirri spurningu: Hvað höfum við að gera þangað yfir höfuð? Eitthvað?

Það hefur oft verið talað um að fræðimennirnir hafi sagt að það væri enginn lagalegur ágreiningur, þeir hafi bara alhæft að það væri enginn lögfræðilegur ágreiningur. Ég hef aldrei heyrt í einum einasta lögspekingi sem alhæfir að ekki geti verið ágreiningur. Ég hef aldrei nokkurn tíma heyrt það. Það stendur nú t.d. í grein í Stundinni, þar sem fyrirsögnin er: Hugsanlegt að höfðað yrði samningsbrotamál gegn Íslandi vegna þriðja orkupakkans. Með leyfi forseta:

„Þrír lögfræðingar sem unnu álitsgerðir um stjórnskipuleg álitamál tengd þriðja orkupakkanum telja hugsanlegt að Eftirlitsstofnun EFTA höfði samningsbrotamál gegn Íslandi og skuldbindingar Íslands vegna orkupakkans komi til kasta EFTA-dómstólsins í framtíðinni.“

Af hverju virðist meginreglan hér vera að tjalda alltaf til einnar nætur, virðulegi forseti? Getum við virkilega ekki horft til framtíðar? Getum við ekki viðurkennt að við erum á ákveðinni vegferð? Við göngum lengra og lengra undir boðvaldið í Brussel. Það er staðreynd. Það hafa allir viðurkennt, líka lögspekingarnir. Þeir hafa allir sagt að það sé auðvitað ákveðinn tilgangur með orkupakkanum. Það er engum blöðum um það að fletta. Af hverju getum við ekki reynt að velta þessu upp á annan hátt? Hvers vegna leyfum við ekki, þegar við vitum að þjóðin er eins ósamstiga í málinu og raun ber vitni, þjóðinni að eiga um þetta síðasta orð? Af hverju ekki þjóðaratkvæðagreiðsla?

(Forseti hringir.) Það er líka annað sem ég get ekki skilið. Við hvað eru stuðningsaðilar orkupakkans smeykir, ef þjóðin er látin eiga síðasta orðið? Þeir hinir sömu sem eru alltaf að tala um beint lýðræði og að þjóðin eigi að fá að eiga síðasta orðið um allt hvaðeina.