149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:21]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Nei. Ef við ætlum bara að horfa á orkupakka þrjú er hann ekki einn og sér orsök fyrir hækkun á raforkuverði núna. Hins vegar er alveg augljóst að með uppskiptingunni sem varð þegar Landsnet varð til hækkaði það náttúrlega, þrátt fyrir þessa skýrslu frá Eflu sem á að sýna fram á það að hér hafi raforkuverð raunverulega lækkað, sem er náttúrlega bara eiginlega galið. Vegna þess að þá allt í einu erum við ekki bara með framleiðslu, heldur með sölu og við erum komin dreifingu, allir aðilar taka til sín.

Við erum með risayfirbyggingu. Við erum komin með fleiri forstjóra og það er verið að reyna að telja okkur trú um það í leiðinni að með því að auka þjónustustigið og koma með stærri yfirbyggingu og þenja út báknið hafi orkuverðið lækkað. Í rauninni tók Efla einungis til eins þáttar sem var framleiðslan sjálf og hún hafði ekki hækkað vegna þess að hún hafði ekki fylgt vísitölu. Þannig var það reiknað út.

En þessi þriðji orkupakkinn felur ekki endilega í sér sæstreng. Það er ekki fyrr en við lítum til lengri tíma. Það er aðeins ein leið sem er verið að fara, íhlutun erlendra aðila í íslenskan orkumarkað og það er staðreynd.

Jú, þegar upp verður staðið munum við sitja við sama borð og allir aðrir á hinum sameiginlega innri orkumarkaði í Evrópu. Ég veit ekki hvort það verður eftir fimm ár eða tíu ár en alla vega er sú vegferð sem hér á sér stað á hinu háa Alþingi alveg skýr. Það er þangað sem við stefnum.