149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það sem mig langar að spyrja þingmanninn út í snýr að markaðsvæðingu orkunnar sem mér fannst hún koma inn á í sinni ræðu, þ.e. að Ísland væri að tengjast enn meira og taka upp reglur markaðsins í Evrópu, evrópskar raforkumarkaðsreglur, ef má orða það þannig.

Nú er það svo að Evrópusambandið hefur kveðið upp þann úrskurð — og árið 2016 barst íslenskum stjórnvöldum tilkynning þess efnis — að þegar nýtingarsamningar sem væru í gildi í dag rynnu út yrði að bjóða þá út á ný. Það yrði einhvers konar uppboð eða útboð á nýtingarsamningum.

Þetta byggir á reglum sem Íslendingar leiddu í sinn rétt 2006, held ég að það hafi verið, og svo 2014, reglur um opinber innkaup.

Þessar gerðir og það sem þessi ákvörðun Evrópusambandsins byggir á, þ.e. að raforka sé bara vara, eru hluti af þjónustutilskipun Evrópusambandsins og í rauninni líka hluti af reglugerð um opinber innkaup.

Með því að innleiða orkupakka þrjú — og það snýst allt saman um ACER og þetta allt saman, þó svo að við eigum að fá einhvers konar undanþágu frá einhverju, sæstreng og einhverju slíku — er hv. þingmaður sammála mér að við séum þá að taka enn eitt skrefið til þess að samræma okkar litla íslenska orkumarkað þessum stóra orkumarkaði Evrópusambandsins, með öllu því sem fylgir?

Og er þá ekki full ástæða til að hafa einhverjar, þó að þær væru bara litlar, áhyggjur af því að Evrópusambandið muni krefjast þess að á Íslandi gildi nákvæmlega sömu reglur og um stórfyrirtæki í Evrópu, (Forseti hringir.) þ.e. að þeim þurfi jafnvel að skipta upp til að auka samkeppni?