149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:32]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Það er ein hlið á þessu orkupakkamáli sem lýtur að utanríkisstefnu okkar í dálítið víðari skilningi sem mér þykir hlýða að fjalla um hér. Það hefur eilítið borið á umræðu um hvað myndi gerast ef farin yrði sú leið, sem manni sýnist vera aðaltillaga þeirra Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar, að leita á grundvelli ákvæða í EES-sáttmálanum sjálfum eftir sáttameðferð á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar, um þá þætti í þessum orkupakka sem háskalegastir mega teljast frá sjónarhóli stjórnarskrár og fullveldis yfir orkuauðlindum þjóðarinnar. Það hefur svolítið borið á því að gefið hefur verið í skyn, a.m.k. af sumum, til að mynda hæstv. utanríkisráðherra, að þá væri sjálfum EES-samningnum teflt í hættu. Sumir hafa gengið svo langt í umræðum að gefa það í skyn, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, að þeir aðilar sem eru fylgjandi þessari leið, sem manni sýnist vera aðaltillaga þeirra tvímenninga í þeirra mikilvæga og ítarlega lögfræðilega áliti, séu í raun eftir því sem manni skilst með lævísum hætti að beita sér fyrir því að Íslendingar hverfi úr þessu samstarfi.

Flestir þeir sem hafa talað fyrir þessari leið og hafa talað gegn samþykkt þingsályktunartillögu utanríkisráðherra stóðu hér á síðasta þingi að beiðni um skýrslu til utanríkisráðherra um kosti og galla aðildar Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Sá sem hér stendur er 1. flutningsmaður þeirrar tillögu og meðal þeirra sem að henni standa eru þingmenn úr fleiri flokkum en Miðflokknum, þarna eru þingmenn úr Sjálfstæðisflokknum og Flokki fólksins. Ég tel að þessir aðilar hafi með tillögunni sýnt í verki að þeir hafa áhuga fyrir því að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann snýr að okkur, takist sem best.

Til grundvallar liggur það viðhorf að á hverjum tíma þurfi að vera fyrir hendi ný eða nýleg skýrsla um Evrópska efnahagssvæðið sem grundvöllur fyrir umræður um þátttöku okkur í þessu mikilvæga alþjóðlega samstarfi og stefnumótun á því sviði. Þessi skýrslubeiðni var gerð að norskri fyrirmynd og er vel þekkt að Norðmenn lögðu mikið kapp á að fram kæmi vönduð skýrsla í sama skyni þar í landi. Þegar því er hér haldið fram að það að Íslendingar samþykki ekki möglunarlaust hvað eina sem lagt er fyrir þá, eins og til að mynda reglugerð nr. 713 og annað af því tagi, stefni samstarfinu í hættu, getur það tæpast verið fallið til þess að styrkja í hugum Íslendinga jákvæða afstöðu til þessa samstarfs. (Forseti hringir.) Ég leyfi mér að vara við því að menn gangi fram með slíkum hætti í umræðunni.