149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:39]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög gott — og ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið — að hann skyldi einmitt vekja athygli á þessu útboðsskilyrðamáli sem fékk ítarlega umfjöllun í Morgunblaðinu um helgina og ég hygg að hún hafi komið mörgum á óvart. Bara sá þáttur málsins kallar á mikla umfjöllun þegar þessi orkupakki er ræddur. Ég á von á því að menn muni einbeita sér í meira mæli að þessu máli í þeim umræðum sem hér eiga eftir að fara fram.

Herra forseti. EES-samningurinn lýtur í grundvallaratriðum að þátttöku okkar í samstarfi um viðskipti á sameiginlegum markaði. Þetta er fyrst og fremst viðskiptasamningur.

Nú er það svo að við leggjum okkar af mörkum í þeim efnum. Það er að mínum dómi ekki maklegt að halda því fram að þegar við viljum ekki fallast á að við eigum að gefa eftir fullveldi og yfirráð yfir orkuauðlindum teljumst við ekki fullgildir aðilar að þessum samningi. Ef það er það sem þeir aðilar sem þannig tala eru að halda fram þá er málið náttúrlega orðið býsna einkennilegt. Þarna er verið að blanda saman alls óskyldum hlutum. Annars vegar því að viðskipti gangi fyrir sig með greiðum hætti og samræmdum og annað af því tagi, og að erlendir aðilar öðlist ítök hér varðandi skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar.