149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:44]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nákvæmlega rétt sem fram kemur hjá hv. þingmanni. Það er ókortlagt svæði, það er bara ekki vitað og það eru bara stór spurningarmerki hver kynnu að verða áhrif þeirrar þjónustutilskipunar og reglugerðar um opinber innkaup sem hv. þingmaður gat um.

Það er alveg nauðsynlegt áður en hér verða teknar endanlegar ákvarðanir í þessu máli að þessi þáttur verði kannaður og rannsakaður ítarlega og nánar. Þannig er nú það, herra forseti.

Þetta er bara eitt af mörgum atriðum sem er í raun og sanni ókannað. Það getur bara ekki verið eðlilegt að það sé ætlast til að að þessi orkupakki verði samþykktur fyrirvaralaust, eins og ýmsir, því miður, virðast stefna að, áður en spurningum um þessi þýðingarmiklu atriði er svarað. Þetta er náttúrlega bara eitt af mörgum atriðum sem eru ekki nægilega ljós.

Það er til að mynda ekki nægilega ljóst hver sé hin lagalega umgjörð þessa máls. Við þekkjum umræðuna um hinn lagalega fyrirvara sem gufaði upp síðastliðinn miðvikudag upp úr klukkan fjögur í ræðu hv. þingmanns, formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins.

Við sáum að öllu var tjaldað til. Við sáum fátið sem greip um sig meðal áhangenda þessa máls þar sem þeir tefldu fram hverjum skýringarkostinum á fætur öðrum um í hverju þessi meinti lagalegi fyrirvari kynni að vera fólginn. Eftir því sem best er vitað hefur hann ekki komið fram. Mat á því (Forseti hringir.) hvert væri stjórnskipulegt gildi slíks fyrirvara og hvernig hann rímaði við EES-samninginn og hvort yfir höfuð sé einhver heimild fyrir ríki til að ganga fram með þeim hætti: Þetta er bara algjörlega órannsakað mál. Mér býður auðvitað í grun að þetta sé með öllu ótæk aðferð.

(Forseti (SJS): Forseti biður hv. þingmenn að gæta að tímamörkum.)