149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:46]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Til að hefja mál mitt þá var lögð fram spurning í ræðu hér í þingsal þann 14. maí sl. um hvar í orkupakka þrjú væri að finna afsal á forræði yfir orkuauðlindinni. Má halda því fram að svarið sé m.a. að finna í álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar, með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af framansögðu er torvelt að líta svo á að framsal ríkisvalds samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 713/2009 sé vel afmarkað og skilgreint. Virðist fremur verða að líta svo á að valdheimildir ESA samkvæmt 8. gr. reglugerðarinnar yrðu óljósar og háðar túlkun á þeim hugtökum sem að framan greinir.“

Til að bæta í þá áréttar Stefán Már Stefánsson í Kastljósi þann 6. maí sl. að það séu nefnd ákveðin dæmi í reglugerðinni hvað þeir geti gert, þ.e. fyrirvararnir, en hann sagði það ekki tæmandi upplýsingar og sagði það óljóst hvort um valdframsal væri að ræða. Það er nefnilega ekki skilgreint eða afmarkað hvaða vald við erum að framselja til stofnana þannig að ef valdið er óskilgreint þá er ekki vitað hvar það endar.

Það er þess vegna sem við hér, þingmenn Miðflokksins, höfum haldið því mjög á lofti að senda málið til sameiginlegu EES-nefndarinnar til þess að fá endanlega og algerlega á hreint og sannarlega hvar og hvernig valdið skal skilgreint. Að okkar mati er því eðlilegt að senda pakkann, málið, í sáttaferli samkvæmt 102. gr. EES-samningsins og samanber 102. gr. laga nr. 2/1993, um EES-samninginn.

Eins og þetta snýr við mér þá er uppskriftin nokkurn veginn svona: Fyrst býr ESB til reglugerðir. Þessum reglugerðum er svo bætt í viðauka EES-samningsins. Sameiginlega EES-nefndin ákveður að við viljum innleiða þetta. EFTA-ríkin setja stjórnskipulegan fyrirvara, sem undir venjulegum kringumstæðum á reyndar að vera búið að taka ákvörðun um innan sex mánaða, en allt í lagi. EFTA-ríkin aflétta öll fyrirvörunum sem gilda um þau. Reglugerðirnar eru þar með innleiddar í EES-samninginn og EFTA-löndin eru aðilar að EES-samningnum og nú gilda þessar reglugerðir um þau. EFTA-löndin sjálf, Ísland í okkar tilfelli, taka til í lögunum hjá sér svo þessar reglugerðir virki miðað við lagasetninguna. Ef lög okkar stangast á þá þarf að gera breytingar. Þetta er stórmerkileg uppskrift, vil ég segja, og þetta lítur ósköp einfaldlega út.

Mig langar til að vitna í umsögn sem barst frá Ögmundi Jónassyni, með leyfi forseta:

„Smám saman missum við sem samfélag forræðið yfir orkunni, auðlindum og vinnslu, og mun gangverk markaðarins stýra för, enda talað fyrir málinu á þann veg af hálfu ráðherra og á vef Stjórnarráðsins.

Þegar bent hefur verið á að hin miklu fyrirheit um lækkun orkuverðs hafi ekki skilað sér við fyrri pakka er okkur sagt af hálfu stjórnvalda að „söluhluti“ raforkuverðsins hafi ekki hækkað og aðrir þættir hljóti að lækka með komandi samkeppni!

Haft hefur verið á orði í umræðunni á Alþingi að utanaðkomandi þrýstingur á orkugeirann komi til með að verða „hagrænn en ekki samkvæmt erlendu valdboði“. Þetta er mergurinn málsins. Hið erlenda valdboð gengur út á að markaðsvæða þennan geira, tengja hann lögmálum framboðs og eftirspurnar. Ég tel að tryggja eigi hag almennings í gegnum eignarhaldið en ekki í gegnum markaðinn fyrir tilstilli tilheyrandi eftirlitsstofnana, þ.e. þeirra sem sinna samkeppniseftirliti og neytendavernd.“

Ef við skoðum greinar sem hafa verið skrifaðar undanfarið hnaut ég um eina frá Bjarna Jónssyni. Ég ætla að leyfa mér að vitna í hana orðrétt, með leyfi forseta:

„Sú leið, sem ríkisstjórnin ætlar að fara í orkupakkamálinu, er ófær, af því að hún brýtur EES-samninginn og er þar með á skjön við Evrópurétt. Annaðhvort verður þingið að samþykkja Orkupakka 3, eins og hann kom frá sameiginlegu EES-nefndinni, eða að hafna honum alfarið. Það er ekki hægt að samþykkja aðeins hluta af honum, en hafna eða fresta hinu.

Afleiðingin af þessu er sú, að hagsmunaaðilar, t.d. Vattenfall í Svíþjóð, geta kært ólögmætan gjörning Alþingis (að Evrópurétti) fyrir ESA, og þá mun þessi innleiðing hrynja, eins og spilaborg, og eftir mun standa í íslenskri löggjöf Þriðji orkumarkaðslagabálkurinn án nokkurrar undantekningar, þ.á m. sá hluti hans, sem 2 af 4 lagalegum ráðgjöfum utanríkisráðuneytisins töldu brjóta í bága við stjórnarskrá Íslands. Þar með virðist einnig myndast grundvöllur fyrir málshöfðun á hendur ríkinu fyrir íslenskum dómstólum fyrir stjórnarskrárbrot.“

Þetta eru ansi stórir og miklir punktar sem ég hef lesið hér. Og til að bæta enn í þá langar mig að vitna til umsagnar sem Landssamband bakarameistara sendi inn. Það er býsna kræft sem þeir segja þar. Með leyfi forseta:

„Tíðindi hafa borist um að norskt vindorkufyrirtæki hafi stofnað dótturfyrirtæki á Íslandi. Markmið fyrirtækisins er að reisa vindmyllur og vindmyllugarða hér á landi. Framkvæmdastjóri hins nýja félags hefur skýrt frá nýjum áformum í Noregi um vindmyllugarða, sem ætlað er að framleiða hundruð megavatta af raforku hverjum um sig og alls um 1000 MV. Ísland á gríðarlega mikla óvirkjaða vindorku, sem mikill markaður er fyrir, þrátt fyrir óstöðugleikann, ef til tengingar með sæstreng kemur. Við höfum séð að erlendir fjárfestar, með erlenda starfsmenn, fá aðgang að ósnortinni náttúru landsins. Það hefur nýlega gerst bæði í ferðaþjónustu og fiskeldi og það mun gerast í öðrum greinum. Óstöðuga orkuframleiðslu þarf að flytja út og má gera ráð fyrir að framleiðslan yrði flutt út, alveg eins og í fiskeldinu. Leyfi fyrir vindmyllugörðum eru þegar í athugun hér og munu skapa fordæmi, sem fylgja verður. Vafasamt er að staðið verði gegn virkjun vinds og sjávarfalla í framtíðinni, eins og horfur eru í orkumálum veraldarinnar.“

Það er merkilegt að lesa það hér upp að Landssambandi bakarameistara er umhugað um náttúruvernd á Íslandi og tekur þar með undir það sem ég las hér upp úr umsögn Ögmundar Jónassonar, sem er nokkuð skýr í sinni umsögn.

Ég held að við þurfum aðeins að staldra við. Það sem við þurfum að gera á þessum tímapunkti er að senda orkupakka þrjú í sáttaferli. Ég vil meina að við eigum að tala um þetta sem sáttaferli. Það er mjög fínt og göfugt orð og það felst ekki í því á nokkurn máta höfnun, nema menn vilji ákveða að höfnun þýði það að við ætlum að setja málið í sáttaferli.