Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:01]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir. Ég er á því að þetta sé til heimabrúks, eins og hann orðaði það. Í umræðum sem við áttum fyrir nokkrum dögum síðan var hv. þingmaður einn um að lýsa því yfir að þetta væri ekki annað en yfirlýsing, þetta væri í rauninni yfirlýsing sem t.d. EFTA-ríkin hefðu komið fram með. Og þau eru með sína túlkun. Íslensk stjórnvöld eru með sína túlkun. Svo í þriðja lagi á þetta að finna sér stað í greinargerð með þingsályktuninni.

Það sem ég er fullviss um er að orkan er vara samkvæmt því sem verið er að gera hér. Það er verið að líta á okkar auðlind sem vöru. Þar með verður allt umstang í kringum okkar auðlind byggt á því hvernig farið er með vöru. Þannig að ég er algerlega sammála því að þessir fyrirvarar eru til heimabrúks.