149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:02]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður nefndi skrif Ögmundar Jónassonar og rökstuðning hans fyrir því að með innleiðingu þriðja orkupakkans væri unnið að áframhaldandi markaðsvæðingu orkunnar. Ögmundur Jónasson hefur ekki bara skrifað um þetta í umsögn sem skilað var til utanríkismálanefndar heldur einnig nýverið í grein í Morgunblaðinu. Hann færir fyrir því mjög sannfærandi rök hvernig orkupakkinn mundi spila inn í slíka þróun.

En í ljósi þess að hv. þingmaður nefndi þetta þykir mér rétt að spyrja hvort hv. þingmaður telji ekki að óhjákvæmileg afleiðing af þessari þróun væri mjög aukinn þrýstingur á að virkja á Íslandi.

Það er ekki að ástæðulausu sem ég spyr um þetta og set í samhengi við skrifa Ögmundar Jónassonar, því stuðningsmenn Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs hafa iðulega sett út á virkjanaframkvæmdir á Íslandi á undanförnum árum og goldið varhug við frekari framkvæmdum. Maður spyr sig: Má ekki ætla að flokkurinn, sem hefur nú einmitt haft efasemdir, svo ekki sé meira sagt, um fyrri orkupakka, ætti að vera í varðstöðu gegn þessari innleiðingu nú? Ekki bara í ljósi markaðssjónarmiða, eins og hv. þingmaður nefndi, heldur líka umhverfisverndarsjónarmiða, eins og sá flokkur skilgreinir umhverfisvernd, þ.e. með andstöðu við virkjanaframkvæmdir á Íslandi. Má ekki draga þá ályktun að þessi orkupakki sé einmitt til þess fallinn að ýta mjög undir virkjanaframkvæmdir af ýmsum toga hér á landi?