Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:05]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni kærlega fyrir andsvarið. Þetta er nefnilega alveg stórfurðulegt. Það er stórfurðulegt að Vinstri grænir séu hreinlega komnir í mótsögn við sjálfa, vil ég bara leyfa mér að segja, alla vega miðað við hvernig þeir hafa talað á umliðnum árum.

En það sem er þó ljósið í þessu er að Ögmundur Jónasson er enn þá á réttri braut. Hann veit nákvæmlega um hvað málið snýst. Og ég get ekki annað en tekið undir að það er furðulegt að Vinstri grænir skuli standa fyrir því að leggja svona aukinn þunga á að fjölga hér virkjunum. Það kallast „virkjanakostir“ á einhverju máli, en niðurstaðan er sú að það er sjálfsagt að virkja hverja einustu lækjarsprænu, allt er gert til þess að þóknast ESB. Maður hreinlega skilur ekki á hvaða leið Vinstri grænir eru.