149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:06]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Mikils metni og virðulegi forseti. Ég var að vonast til þess að hv. þingmaður gæti á einhvern hátt leitt mér fyrir sjónir hvers vegna Vinstri grænir, nú í ríkisstjórn, ganga fram með þessum hætti, að því er virðist þvert gegn því sem flokkurinn hefur boðað árum saman, ekki hvað síst með tilliti til náttúruverndar eins og sá flokkur skilgreinir þann málaflokk.

En hv. þingmaður virðist jafn undrandi og ég á þessum sinnaskiptum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Ég vona að ég sé ekki að ganga of langt í vangaveltum — mér finnst tilefni til að velta vöngum þegar svona undarleg breyting á sér stað — þegar ég spyr hv. þingmann: Getur verið að þetta sé hluti af einhverju samkomulagi ríkisstjórnarflokkanna um aðra hluti, að Vinstrihreyfingin – grænt framboð hafi ákveðið að styðja innleiðingu orkupakkans gegn því að fá eitthvað annað í staðinn? Við höfum séð Sjálfstæðisflokkinn gefa eftir, hvað eftir annað, í öðrum málum.