149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:08]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún hefur verið að ræða hér, eins og við öll, um innleiðingu þriðja orkupakkans. Það hefur vakið athygli mína að talsmenn orkupakkans hafa rætt mjög þröngt um orkupakkann, um túlkunina, og komist að þeirri niðurstöðu að það sé akkúrat ekkert í þessum pakka, þetta sé bara algjört núll-mál, og að hér sé ekkert að óttast, þrátt fyrir að þeir séu allir sammála um það líka að það verði að setja fyrirvara við þetta. Maður fær misjafnan skýringar á fyrirvörum.

En það vekur athygli að fjölmargar ræður þessara fylgjenda hafa verið innihaldsrýrar, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þær hafa m.a. fjallað um nasisma. Hér hefur verið upplestur úr bók sem er þýdd af samflokksmanni þess sem ræðuna hélt. Fólki hefur orðið tíðrætt um popúlisma og lýðskrum, hræðsluáróður o.s.frv. En fáir hafa fylgt ræðum sínum úr hlaði með rökum fyrir því af hverju þessi leið skuli valin og af hverju við ætlum að velja leið sem klárlega er lagaleg óvissa um.

Þeir forðast þá umræðu sem nú er hafin og er kannski um eitthvað sem skiptir hvað mestu máli, þ.e. um framtíðina, um framtíðarskipan orkumála eftir innleiðingu þessa orkupakka.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að við innleiðingu þriðja orkupakkans beri okkur að líta til þess sem á eftir kann að koma.