149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:14]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þakka hv. þingmanni fyrir. Þegar hann nefnir þetta sem hefur birst á samráðsgáttinni um stjórnarskrárdrögin er stórmerkilegt að sjá að í 1. gr. draganna segir, með leyfi forseta:

„Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis.“

Það sem er merkilegt í þessu er að það segir einnig í greinargerð að „slík gjaldtaka geti m.a. farið fram með nýtingarsamningum“ og er vísað til nýlegra samninga ríkisins um nýtingarheimildir vatnsafls. Þannig að mér finnst þetta alveg stórmerkilegt.

Og til að svara síðustu spurningunni, um ACER, (Forseti hringir.) er alveg ljóst að ACER mun hafa hér alræðisvald.