149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:15]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla hér í annarri ræðu að fara aðeins dýpra í þetta mál, en byrja á því að gera smáathugasemd við málflutning sem hafður var uppi fyrr í dag þar sem það var borið upp á þingmenn að þeir hefðu einhvern veginn verið að samþykkja þennan orkupakka fyrir nokkrum árum. Nú er það þannig að þegar orkupakki tvö eða tilskipun tvö var innleidd hér þá var fyrst farið að tala um kerfisáætlanir. Síðan er það árið 2015 að þáverandi iðnaðarráðherra, m.a. eftir samráð við þá sem eru í orkuframleiðslu, telur rétt að kveða skýrar á um kerfisáætlanir út af væntanlegum framkvæmdum um flutningsnetið og ekki síst vegna skýrslu sem unnin var varðandi jarðstreng í jörðu. Allt byggði þetta á því að önnur raforkutilskipunin, sem hér var tekin upp, gerði ráð fyrir því að menn myndu fara áfram í ferlinu og búa til svokallaða kerfisáætlun. Það er því rangt sem hefur komið fram að þar hafi menn stigið skref í þá átt að innleiða þennan orkupakka sem nú er verið að ræða, enda kemur skýrt fram í orðum og flutningsræðu þáverandi ráðherra, sjálfstæðiskonunnar Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, að ekki sé með nokkrum hætti verið að innleiða þessa tilskipun, heldur verið að halda áfram með það sem var sett í gang fyrir nokkrum árum.

Það sem mig langar að fjalla svolítið um hér núna er að mér finnst ég ekki hafa fengið neina trúverðuga skýringu eða rök fyrir því að ekki séu líkur á að einstaklingar eða jafnvel Eftirlitsstofnunin muni höfða samningsbrotamál gagnvart Íslandi fyrir að hafa ekki staðið eða innleitt með réttum hætti þennan orkupakka. Og þannig er að íslensk lög, sem við erum væntanlega að fara að breyta og setja inn einhvers konar meintan fyrirvara, hafa að sjálfsögðu ekki gildi þegar út er komið. Þar eru það evrópsk lög sem gilda, þ.e. EES-lög gilda á Evrópska efnahagssvæðinu, ekki íslensku lögin. Þess vegna er svo mikilvægt að það sé algjörlega í gadda slegið hvað þetta þýðir fyrir okkur.

Lögfræðingar, fleiri en einn, hafa skrifað opinberlega eða sent athugasemdir þar sem þeir benda á að nokkrar greinar EES-samningsins gera í raun kröfu á aðildarríkin, aðrar en vitnað er til í kringum þennan orkupakka, að uppfylla skyldur sínar. Í 7. gr. EES-samningsins er ekki minnst á að ríki geti sett einhliða fyrirvara við innleiðingu þeirra gerða í landsrétt, en þar er hins vegar kveðið á um einsleitni eða að tryggja þurfi einsleita túlkun og framkvæmd samningsins. Í 7. gr. segir að hún bindi samningsaðila.

Ég ber þetta hér upp, virðulegi forseti, til að minna á að þegar við erum búin að innleiða þær gerðir sem hér um ræðir, og jafnvel þótt við séum með einhvern fyrirvara til heimabrúks, þá er það þessi samningur sem ræður för og samningur sem gildir. Ef hann segir að okkur beri að gera þetta með ákveðnum hætti og þetta bindi okkur samkvæmt samningnum þá gildir það að sjálfsögðu nema fyrirvarinn sé samþykktur af sameiginlegu EES-nefndinni, sem virðist ekki eiga að gera hér.

Það hefur líka komið fram, t.d. í viðtali við Friðrik Árna Friðriksson Hirst, að það er ekkert sem tryggir að Eftirlitsstofnun EES eða einstaklingar eða lögaðilar höfði ekki mál fyrir EFTA-dómstólnum gegn Íslandi fyrir að standa ekki við þetta allt saman. Það verður ekki samið eftir á við Evrópusambandið um þetta. Það þarf að gera það núna ef menn ætla að gera það á annað borð.

Ég nefndi hér í andsvari fyrr í kvöld, og minntist á umfjöllun sem var í Morgunblaðinu þar sem fjallað er um nýtingarrétt á grundvelli EES-reglna, eða þær kröfur sem Evrópusambandið hefur gert varðandi nýtingarrétt, og vitnað þar í orkumálastjóra m.a. að raforkusamningar eða nýtingarsamningar sem eru í gildi muni þurfa að fara í útboð þegar samningstíma er lokið.

Síðan segir í þessari ágætu umfjöllun, sem Gunnlaugur Snær Ólafsson blaðamaður skrifar, að árið 2016 — það er í raun rifjað upp, því að auðvitað eigum við að muna þetta — barst íslenskum stjórnvöldum tilkynning frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, með leyfi forseta:

„… um að þeim bæri að setja lög sem krefjast þess að greitt sé markaðsverð fyrir nýtingarrétt á náttúruauðlinda í almannaeigu með það fyrir augum að framleiða rafmagn. Var jafnframt kveðið á um að allir gildandi samningar yrðu endurskoðaðir þannig að það sem eftir væri af samningstíma yrðu raforkufyrirtæki að greiða fyrir nýtingarréttinn.“

Síðan er í greininni rifjað upp þegar Evrópusambandið höfðaði mál, samningsbrotamál, gegn nokkrum ríkjum Evrópusambandsins fyrir að hafa ekki farið í opið útboð á þessum vatnsréttindum. Samningsbrotamálið sem var höfðað byggði á tveimur hlutum, annars vegar þjónustutilskipuninni frá 2006 — gæti þess vegna verið byggt á fleirum, en það er nefnt hér — og hins vegar á reglum um opinber innkaup frá 2014 og hafa Íslendingar tekið hvort tveggja upp í lög.

Áhyggjurnar sem ég hef, virðulegur forseti, af þessu er að með því að stíga þetta skref núna, að innleiða enn þá meira af þessum markaðsreglum Evrópusambandsins, þegar kemur að orkunni, séum við enn að auka hættuna á því að hið yfirþjóðlega vald muni með einhverjum hætti geta sóst hér inn á Ísland og skipað fyrir um það hvernig við förum með auðlindir okkar. Ég er ekki að segja að Evrópusambandið muni geta ráðið eða eignast með einhverjum hætti jarðhitann eða fallvötnin, mér dettur ekki í hug að halda því fram, en stefnan er greinilega, miðað við þær orkustefnur sem við höfum séð frá Evrópusambandinu eða undirstofnunum þess, að hafa áhrif á það hvernig orkan er nýtt, hvernig hún er seld og á hvaða verði. Fyrir Ísland skiptir gríðarlega miklu máli að vera samkeppnishæft við önnur lönd og geta eitt ráðið og stýrt því verði sem við viljum fá fyrir okkar orku.

Ég velti því fyrir mér, ef okkur dytti í hug að selja rafmagnið aðeins ódýrara — hætta við að safna í einhvern sjóð, auðlindasjóð, lækka bara raforkuverð til heimila og þess vegna fyrirtækja, eða þá bjóða út rafmagnið á lægra verði — hvort við mættum það hreinlega. Ég held við mættum það ekki miðað við þær reglur sem eru í gildi í dag. Ég held að Evrópusambandið sé komið með krumlurnar þannig inn að við yrðum sjálfsagt í það minnsta klöguð, mögulega höfðað mál gegn okkur, fyrir það eitt að vera að selja rafmagnið ódýrara en gert er á vettvangi Evrópusambandsins. Það kann að skýra þá stefnu sem Landsvirkjun hefur tekið undanfarin ár að miða raforkuverð sitt, ef ég man rétt, við Evrópuverð. Þá er nú orðið spursmál hvers virði það er að eiga raforku — geta nýtt hana með þeim hætti sem við teljum best, laðað að fjárfesta og byggt upp fyrirtæki og atvinnulíf, lækkað orkuverð til einstaklinga og fyrirtækja — ef við ráðum þessu ekki sjálf.

Mál þetta er vitanlega hægt að leysa. Einfalda lausnin er sú að vísa málinu eins og heimilt er til sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem óskað verði eftir undanþágum eða málið sett í sáttaferli. Það er ekkert hættulegt við það og það að fólk skuli standa hér og kalla það neyðarrétt eða neyðarhemil er hreinlega móðgandi. Þetta er skrifað inn í samninginn og þar (Forseti hringir.) er ekki kveðið á um að þetta skuli nota sparlega.