149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:26]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu sem er einmitt á þeim nótum sem maður hefur verið að kalla eftir hér. Ég vil taka það fram að ég sakna þess að fylgismenn orkupakkans taki ekki þátt í þessari umræðu þar sem ég veit að ansi margir þeirra eru í húsi.

Hv. þingmaður kom inn á samningsbrotamál sem, ef ég man rétt, voru höfðuð fyrir tveimur mánuðum og snúast um þjónustutilskipun frá 2006 og reglugerð frá 2014 um opinber útboð. Þegar við komum að þessu máli verðum við að velta því fyrir okkur að þegar hið opinbera, eða eigandi orkuauðlindarinnar, fer í opinbert útboð skiptir það verulegu máli á forsendum markaðarins hverjir myndu taka við þeim samningum. Hið opinbera gæti leyft sér að ná arðsemi á lengri tíma en einkaaðilar þurfa kannski skemmri tíma til að ná inn sinni ávöxturnarkröfu. Hið opinbera getur kannski leyft sér að vera 40, 50 upp í 100 ár að ná inn arðsemi. Dæmi um það er Landsvirkjun sem var stofnuð á sjöunda áratug þessarar aldar og er að skila arði núna. Einkageirinn væri hins vegar mjög líklegur til að láta arðsemiskröfuna nást á 10–25 árum. Þetta myndi augljóslega ýta raforkuverði upp.

Mig langar að beina fyrirspurn til hv. þingmanns um hvaða áhrif slíkt myndi hafa á innlenda framleiðslu — til að mynda ylrækt, álframleiðslu, sem fleiri hundruð störf hvíla á, jafnvel þúsundir — og afleidd störf sem tengjast þessu.