149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:30]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Þetta eru áhugaverðar vangaveltur og ég held að það sé ábyrgðarfullt að velta þeim upp, vegna þess að það sem við ræðum hér má ekki túlka þröngt. Ég held að við séum á ákveðnum tímapunkti, hvað sem mönnum finnst um að átt hefði að gera við innleiðingu fyrsta og annars orkupakka, sem við getum kallað skurðpunkt. Á þeim tíma sem hinir fyrri orkupakkar voru innleiddir var ekki fyrirséð það sem er að gerast núna. Við getum á sama hátt kíkt inn í orkupakka fjögur, en við vitum ekki hvað orkupakki fimm og sex fela í sér. Ég hef á tilfinningunni að þeim orkupökkum muni fylgja enn frekari kvaðir á hendur Íslendingum um að framselja eða hafa minni völd yfir því hvernig við ráðstöfum orkuauðlindum okkar. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sjái fyrir sér að það geti orðið.