149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé mitt mat, hv. þingmaður, að það séu alls engar líkur á því að þeir sem vilja drífa þetta mál í gegn núna hafi einhvern frekari vilja til þess síðar að nýta sér þá lagalegu heimild sem er í EES-samningnum, þ.e. að vísa þessu til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Ég veit ekki af hverju þetta ágæta fólk ætti að vilja gera það þá. Ég vil gjarnan benda á að þegar við innleiddum aðra tilskipunina, sem við köllum stundum orkupakka tvö, þá gerðum við það með slíkum glæsibrag að Evrópusambandið sá ástæðu til að hafna undanþágum okkar frá orkupakka þrjú á þeirri forsendu að við hefðum innleitt númer tvö svo rosalega vel og í rauninni umfram það sem við þurftum að gera. Það voru ein rökin fyrir því að við gátum ekki fengið undanþágu og hin voru að Ísland væri að framleiða svo mikla orku. Það mun ekkert breytast. Ég held að það sé (Forseti hringir.) útilokað að segja að menn muni hafa frekari kjark eða þor (Forseti hringir.) til þess að beita því ákvæði þegar fram líða stundir á orkupakka fjögur, fimm eða hvað þeir verða nú margir.