149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:40]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég hefði viljað fá álit hv. þingmanns á þeirri aðferðafræði sem utanríkisráðuneytið beitti með því að kalla til sérstakan álitsgjafa, Carl Baudenbacher, sem er fyrrverandi dómari við EFTA-dómstólinn. Þetta er einstaklingur sem er kominn á eftirlaun og starfar sem verktaki við það að gefa álitsgerðir. Þetta er ein af þeim sem hann hefur gert og var hann kallaður til starfa af utanríkisráðuneytinu.

Það vakti óneitanlega athygli þegar þessi álitsgerð kom og hún virkaði sem svolítið tromp af hálfu stjórnvalda, að koma með hana svona á síðustu metrunum. En þessi álitsgerð er fyrst og fremst náttúrlega lögfræðileg. Það sem ég sakna er að ekki er horft á pólitísku hliðina. Hún skiptir verulegu máli. Í álitsgerðinni segir Baudenbacher að hann telji að verði innleiðingunni hafnað komi það til með að valda óvissu hvað varðar EES-samninginn.

En nú er það svo að Evrópusambandið horfir mjög til okkar hreinu orku. Það er búið að teikna upp kort með sæstreng frá Íslandi til Evrópu — þetta er allt gert með vitund og vilja íslenskra stjórnvalda og stimplað í Brussel — sem sýnir að við erum Evrópusambandinu mjög mikilvæg. Það væri gott að fá álit hv. þingmanns vegna hans fyrri reynslu sem utanríkisráðherra, hvort hann telji ekki að með þessu lögfræðiáliti sé verið að horfa algerlega fram hjá því að það er pólitískur vinkill á málinu (Forseti hringir.) sem er okkur í hag, þ.e. þessi mikla þörf á hreinni orku okkar. Ef hv. þingmaður gæti aðeins komið inn á þetta.