149. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:45]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hann kom einmitt inn á það sem ég held að sé mjög mikilvægt í umræðunni, að í fyrsta lagi getum við virkjað 102. gr. í EES-samningnum, sem er sú leið sem á að fara þegar sættir nást ekki um ákveðin atriði. Þetta er samningsbundið ákvæði. Það er einmitt það sem hv. þingmaður nefndi, að það hafi komið fram í álitsgerðum, eins og frá Alþjóðastofnun Háskólans í Reykjavík, að þetta sé fyrst og fremst neyðarréttur. En það stendur hvergi í samningnum að þetta sé neyðarréttur. Ef þetta væri neyðarréttur hlyti það standa í samningnum sjálfum. En svo er ekki. Má ekki segja að t.d. stofnun eins og Alþjóðastofnun Háskólans í Reykjavík sé algerlega að oftúlka þetta (Forseti hringir.) með því að setja þetta fram með þessum hætti? Þetta er bara samningsbundið atriði (Forseti hringir.) sem er í samningnum og er hægt að fara þessa lögformlegu leið í þeim efnum.